Fótbolti

Allt sauð uppúr á æfingu hjá Aroni Elís og félögum í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Elís Þrándarson spilar með liði Aalesund.
Aron Elís Þrándarson spilar með liði Aalesund. Vísir/Getty
Það voru mikil læti á æfingu Íslendingaliðsins Aalesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta og svo mikið gekk á að norskir fjölmiðlar komust í málið.

Björn Helge Riise, fyrirliði Aalesund-liðsins, lenti þá saman við Hollendinginn Edwin Gyasi þannig að menn urðu að ganga á milli þeirra.

Björn Helge Riise er yngri bróðir John Arne Riise, sem lék áður með Liverpol í sjö ár en er nú að spila við hlið bróður síns hjá Aalesund.

Með Aalesund-liðinu spilar þrír íslenskir strákar eða þeir Aron Elís Þrándarson, Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarson.

Edwin Gyasi er nýkominn til Aalesund en Björn Helge Riise hefur spilað með liðinu frá 2015 en hann snéri þá aftur til uppeldisfélagsins síns eftir tólf ára fjarveru.

Edwin Gyasi var ekki sáttur við tæklingu frá Björn Helge Riise á æfingunni, þaut á fætur og ýtti í andlit Björn Helge Riise. Aðrir leikmenn brugðust strax við og gengu á milli þeirra.

Trond Fredriksen, þjálfari Aalesund, sendi Edwin Gyasi beint í sturtu eftir atvikið. „Það sem gerðist á æfingu í dag er á mörkum þess sem er boðlegt og ekki boðlegt," sagði Fredriksen í samtali við Sunnmørsposten sem fjallaði um málið.

Björn Helge Riise sagði í viðtali við Sunnmørposten að hann og Edwin Gyasi hafi talað saman eftir æfingu og það sé allt í góðu á milli þeirra.

Aalesund mætir Vålerenga í botnbaráttuslag í næstu umferð en þar þurfa bæði lið á stigum að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×