Erlent

Allt reynt til að bjarga þeim sem fastir eru í rústum bygginga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sjálfboðaliðar og björgunarsveitir vinna hörðum höndum við rístir bygginga.
Sjálfboðaliðar og björgunarsveitir vinna hörðum höndum við rístir bygginga. Vísir/Getty
Björgunarsveitir og sjálfboðaliðar reyna allt sem hægt er til þess að bjarga þeim sem fastir eru í rústum bygginga eftir jarðskjálftann kröftuga sem reið yfir Mexíkó fyrr í kvöld. Yfir hundrað manns fórust í jarðskjálftanum

Í samtali við BBC segir blaðakonan Natasha Pizzey að hundruð sjálfboðaliða séu nú að störfum við hlið björgunarsveita í Mexíkó-borg. Myndaðar hafa verið raðir sem færi steina og annað brak frá rústum bygginga í von um að finna fólk á lífi.

Þá segir hún einnig að sjálfboðaliðar noti meðal annars verslunarkerrur úr nærliggjandi búðum til þess að flytja brak og rústir á brott.

Eins og greint hefur verið frá eru nákvæmlega 32 ár frá því að jarðskjálfti kostaði um tíu þúsund manns lífið. Svo virðist sem að í sumum tilvikum hafi fólk hunsað viðvörunarbjöllur vegna jarðskjálftans þar sem þeir töldu að um æfingu væri að ræða.

Sjá einnig: Myndbönd sýna kraft skjálftans í Mexíkó

Jarðskjálftinn reið yfir rétt eftir klukkan eitt eftir hádegi að staðartíma, um klukkan sex að kvöldi til að íslenskum tíma. Jarðskjálftinn átti upptök sín um 120 kílómetra frá Mexíkóborg, samkvæmt upplýsingum Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna.

Þegar þetta er skrifað hafa yfirvöld staðfest að 119 eru látnir en óttast er að tala látinna muni hækka. Mest er mannfallið í Morelos-ríki þar sem 54 hafa látist. níu létust í Mexíkó-ríki, 30 í Mexíkóborg og 26 í Pueblo-ríki.

Myndbönd frá vettvangi sýna hvernig byggingar hrundu til grunna í Mexíkóborg og ljóst er að mikið tjón hefur orðið að völdum skjálftans.

Talið er að um fjórar milljónar manna séu án rafmangs af völdum jarðskjálftans. Fyrr í þessum mánuði létust um 90 manns í jarðskjáfta í Mexíkó.

Þjóðarleiðtogar heims hafa vottað íbúum Mexíkó samúð sína, þar á meðal Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þá hefur Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, lýst því yfir að yfirvöld þar í landi séu reiðubúin að aðstoða Mexíkó vegna skjálftans.


Tengdar fréttir

Öflugur jarðskjálfti skók Mexíkó

Skjáftinn olli talsverðu tjóni í höfuðborg landsins, Mexíkóborg, en vitni greina frá því að byggingar hafi verið rýmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×