Enski boltinn

Allt í volli hjá Rotherham United síðan að Kári Árna fór

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason var frábær með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi.
Kári Árnason var frábær með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi. Vísir/Getty
Íslenskt knattspyrnuáhugafólk þekkir vel mikilvægi Kára Árnasonar og fólkið í Rotherham hlýtur að sakna íslenska landsliðsmiðvarins mikið þessi misserin.  

Rotherham United er enn á ný komið með nýjan knattspyrnustjóra en enska félagið hefur verið í miklum vandræðum með stjóra síðan að íslenski landsliðsmaðurinn Kári Árnason yfirgaf félagið.

Kári Árnason kom til Rotherham United árið 2012 og fór í framhaldinu upp um tvær deildir með liðinu. Knattspyrnustjórinn þann tíma var hinn litríki Steve Evans.

Kári hefur talað um það í viðtölum að það var oft ekki mikið vit í því sem Steve Evans var að gera og Kári viðurkenndi það að hafa stundum hjálpað stjóranum með leikskipulag og annað.

Kári yfirgaf Rotherham United sumarið 2015 eftir þrjú tímabil. Hann samdi við sænska liðið Malmö FF þar sem hann spilar enn.

Eftir að Kári fór frá Rotherham United hefur allt gengið á afturfótunum og félagið hefur farið í gegnum hvern knattspyrnustjóranna á fætur öðrum.

Það eru bara liðnir 18 mánuðir síðan að Kári fór frá Rotherham United en félagið er nú á sínum fimmta knattspyrnustjóra á þessu tímabili.

Steve Evans entist bara í tvo mánuði eftir að hann missti Kára Árnason en síðan hefur félagið rekið þrjá stjóra til viðbótar eða þá Neil Redfearn (október 2015 - Febrúar 2016), Neil Warnock (Febrúar 2016 - Maí 2016) og Alan Stubbs (Júní 2016 - Október 2016).

Alan Stubbs var síðastur til að missa starfið sitt en Rotherham United hefur nú fundið eftirmann hans í Kenny Jackett. Jackett fær það verkefni að bjarga liðinu frá falli en Rotherham United er í neðsta sæti b-deildarinnar með 6 stig og 1 sigur í 13 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×