Erlent

Allt í járnum á milli Sanders og Clinton

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bernie Sanders og Hillary Clinton njóta stundar milli stríða. Mjótt er á mununum milli þeirra í fyrstu ríkjunum sem velja sér forsetaefni.
Bernie Sanders og Hillary Clinton njóta stundar milli stríða. Mjótt er á mununum milli þeirra í fyrstu ríkjunum sem velja sér forsetaefni. Nordicphotos/AFP
Einkar mjótt er á munum á milli Bernie Sanders og Hillary Clinton, sem bæði sækjast eftir útnefningu Demókrataflokks Bandaríkjanna til forsetaframboðs, þegar minna en mánuður er í að forkosningar verða haldnar í fyrstu ríkjunum, Iowa og New Hampshire. Samkvæmt nýjum könnunum fréttastofu Wall Street Journal, NBC og rannsóknafyrirtækisins Marist leiðir Sanders í síðarnefnda fylkinu og Clinton í því fyrrnefnda.

Sanders nýtur fimmtíu prósenta fylgis í New Hampshire en Clinton 46 prósenta. Þá nýtur Clinton 48 prósenta fylgis í Iowa en Sanders 45. Þó eru forskot beggja aðila vel innan skekkjumarka.

Fylkin tvö hafa reynst einkar mikil­væg undanfarna áratugi. Hefur það einungis gerst einu sinni undanfarin fjörutíu ár að frambjóðandi hefur orðið forsetaefni flokks síns án þess að sigra í öðru hvoru fylkjanna, Bill Clinton árið 1992. Árið 2008, þegar Hillary Clinton atti kappi við Barack Obama, mældist hún með meira fylgi á landsvísu en Obama allt þar til hann bar sigur úr býtum í Iowa og skaust þar með fram úr henni.

Eftir því sem Sanders hefur þokast nær Clinton undanfarnar vikur hefur hún bent á að henni sjálfri myndi ganga betur í hinum almennu kosningum sem haldnar verða í nóvember og væri líklegri til að halda repúblikönum frá Hvíta húsinu. „Við verðum að tryggja að við komum demókrata í Hvíta húsið svo repúblikanar eyðileggi ekki þann árangur sem náðst hefur,“ sagði Clinton í síðustu viku.

Sanders gengur hins vegar betur en Clinton þegar þeim er stillt upp gegn repúblikönum í skoðanakönnunum. Báðir demókratarnir mælast þó með meira fylgi en repúblikaninn í slíkum samanburðarkönnunum.

Á meðal repúblikana nýtur Donald Trump mests fylgis í New Hampshire, þrjátíu prósenta, en Marco Rubio næstmests, fjórtán prósenta. Ted Cruz mælist efstur í Iowa með 28 prósent en Trump mælist með 24 prósent.


Tengdar fréttir

Hryðjuverk í brennidepli

Hryðjuverkaárásirnar í París síðastliðið föstudagskvöld voru í brennidepli í kappræðum þeirra sem sækjast eftir útnefningu Demókrataflokks Bandaríkjanna til forsetaframboðs aðfaranótt sunnudags. Kappræðurnar hófust á mínútu þögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×