Körfubolti

Allt byrjunarlið Grindvíkinga með yfir tíu stig í leik í einvíginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Clinch Jr. var frábær í oddaleiknum og stigahæstur Grindvíkinga í einvíginu.
Lewis Clinch Jr. var frábær í oddaleiknum og stigahæstur Grindvíkinga í einvíginu. Vísir/Anton
Grindvíkingar tryggðu sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta eftir sigur á Þór úr Þorlákshöfn í oddaleik í átta liða úrslitunum.

Grindavík hafði hvorki unnið leik eða seríu í síðustu tveimur úrslitakeppnum (2015 og 2016) en bætti úr því í ár og er Grindavíkurliðið nú komið í hóp fjögurra bestu liða landsins ásamt KR, Stjörnunni og Keflavík.

Það er óhætt að segja það að byrjunarlið Grindvíkinga hafi skilað sínu í einvíginu á móti Þór en allir fimm voru með yfir tíu stig að meðaltali í leik og með yfir 14 í framlagi.

Lewis Clinch Jr. var frábær í gær með 30 stig og 10 stoðsendingar og allir byrjunarliðsmennirnir nema Ómar Örn Sævarsson skoruðu tíu stig. Ómar var hinsvegar með 13 fráköst og þá fékk Grindavíkurliðið einnig 25 stig frá bekknum sem var það langmesta hjá liðinu í einvíginu.  

Ólafur Ólafsson var síðan með 13 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar en hann var sá leikmaður Grindavíkur sem var með hæstameðalframlagið í einvíginu og sá eini yfir 20.

Þórsarar fengu 20 fleiri stig frá bekknum í leikjum eitt til fjögur (55-35) en Grindvíkingar jöfnuðu við þá með því að fá 20 fleiri stig frá bekknum í oddaleiknum (25-5).

Flest stig í leik hjá Grindavík í einvíginu á móti Þór í 8 liða úrslitunum:

1. Lewis Clinch Jr.    22,4

2. Dagur Kár Jónsson    16,8

3. Þorleifur Ólafsson    15,0

4. Ólafur Ólafsson    14,2

5. Ómar Örn Sævarsson    10,0

Hæsta framlag í leik hjá Grindavík í einvíginu á móti Þór í 8 liða úrslitunum:

1. Ólafur Ólafsson    20,8

2. Lewis Clinch Jr.    18,8

3. Ómar Örn Sævarsson    15,6

4. Þorleifur Ólafsson    15,0

5. Dagur Kár Jónsson    14,6

Stig frá bekk í leikjum einvígisins:

Leikur 1: Grindavík +4 (13-9)

Leikur 2: Þór +10 (16-6)

Leikur 3: Þór +4 (13-9)

Leikur 4: Þór +10 (17-7)

Leikur 5: Grindavík +20 (25-5)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×