Lífið

Allt bara hugmyndir

Baldvin Þormóðsson skrifar
Margrét Bjarnadóttir segir að verkin á sýningunni séu sjálfstæð en sjá megi tengingar á milli þeirra.
Margrét Bjarnadóttir segir að verkin á sýningunni séu sjálfstæð en sjá megi tengingar á milli þeirra. mynd/einkasafn
„Þetta eru verk sem ég hef verið að vinna að síðustu ár og eiga ekki beint heima á sviði þar sem ég er vanari að vinna,“ segir danshöfundurinn Margrét Bjarnadóttir en hún opnar sýningu sína LIFE-EFI í Kling og Bang klukkan 17.00 í dag á vegum Reykjavík Dance Festival.

„Þetta er svona önnur hlið á því sem ég hef verið að gera,“ segir Margrét. „Þetta eru ljósmyndir, teikningar og vídeóverk en þetta eru allt bara hugmyndir og því ekkert frábrugðið því sem ég geri vanalega en samt í öðru formi,“ lýsir listamaðurinn en sýningin er fyrsta einkasýning Margrétar í safni.

„Ég held að það séu tengingar á milli verkanna á sýningunni en þau eru samt sjálfstæð,“ segir Margrét. „Ljósmyndirnar eru eitt verk og myndbandsverkið annað en ég held að það megi finna tengingar á milli.“

Meðal verka Margrétar á sýningunni eru til dæmis svonefnd anagröm þar sem búið er að endurraða stöfum í nöfnum fólks og finna út nýja merkingu sem lýsir persónunni. Sem dæmi er hún með fjölmiðlamanninn „Egill Helgason“ og hefur endurraðað stöfunum sem „og lesa helling.“

„Þetta eru annaðhvort þjóðþekktir einstaklingar eða bara vinir mínir,“ segir Margrét en hún er með fjórtán slík anagröm. „Ég þarf að þekkja persónuna eða vita nógu mikið um hana af því þetta eru ekki bara einhver orð. Þau þurfa að kallast á við persónuna á bak við nafnið.“

Annað verk sem Margrét sýnir í dag er myndbandsverk þar sem hún fékk til sín fimm einstaklinga, sem misst hafa einhvern nákominn, til þess að reyna að muna og kalla fram hreyfingar eða háttalag viðkomandi manneskju.

„Þetta er fimm rása myndbandsverk þar sem hver einstaklingur er á sínu sjónvarpi og allt sýnt samtímis,“ lýsir Margrét.

Eins og áður hefur komið fram verður sýningin opnuð í Kling og Bang í dag klukkan fimm en hún mun standa í mánuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×