Innlent

Allt að fimmtán milljarða innspýting

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Oddvitar stjórnarflokkana á góðri stundu í Ráðherrabústaðnum.
Oddvitar stjórnarflokkana á góðri stundu í Ráðherrabústaðnum. vísir/eyþór
Gert er ráð fyrir allt að fimmtán milljarða innspýtingu í rekstur bæði heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins umfram það sem stefnt var að með fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar í nýju fjárlagafrumvarpi. Það verður lagt fram á fimmtudaginn. Töluverð útgjöld eru einnig ætluð í samgöngumál auk þess sem efla á löggæslu og bæta þjónustu víða um land fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

„Innspýtingin fer í hina opinberu heilbrigðisþjónustu; Landspítalann, heilsugæsluna og hinar almennu sjúkrastofnanir um landið,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og bætir við: „Þessi hluti af almannaþjónustunni hefur þurft að bíða allt of lengi og fólk hefur þurft að hlaupa hraðar og gera meira í allri heilbrigðisþjónustunni allt frá hruni og í rauninni lengur. Þannig að það er kominn tími til að þessir innviðir fari að finna fyrir því að okkur er að ganga betur.“

Svandís hyggst leita eftir samvinnu við menntamálaráðherra um málefni Landspítalans. „Það má ekki gleyma því að Landspítalinn er háskólasjúkrahús þannig að þetta er menntastofnun líka og við þurfum að búa vel að vísindastarfi og rannsóknum. Að þessum þætti þurfum við að vinna saman, við menntamálaráðherra,“ segir Svandís.

Menntamálaráðherra tekur heils hugar undir þessi orð Svandísar og segir brýnt að taka upp þverfarlega samvinnu varðandi rannsóknir og þróun á þessum vettvangi.

„Það verður stóraukin áhersla á menntamál í þessu fjárlagafrumvarpi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. „Áherslan verður á háskólastigið, framhaldsskólastigið, verk- og iðnnám. Þessi ríkisstjórn ætlar sér að skapa hagkerfi sem er drifið áfram af verk- og hugviti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×