Erlent

Allt að 25 gráðum hlýrra en vanalega í hitabylgju á norðurskautinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Óvanaleg hlýindi hafa komið síðustu vetur á norðurskautinu. Hafísinn var í lágmarki fyrir árstíma þar í janúar. Myndin er úr safni.
Óvanaleg hlýindi hafa komið síðustu vetur á norðurskautinu. Hafísinn var í lágmarki fyrir árstíma þar í janúar. Myndin er úr safni. Vísir/AFP
Hiti á norðurskautinu hefur á sumum stöðum verið meira en 25°C hærri en vanalega í febrúar. Norðan 80. breiddargráðu norður hefur meðalhitinn verið um 6°C hærri á fyrstu mánuðum ársins en í venjulegu árferði.

Washington Post segir frá því að hitinn á Morris Jesup-höfða, nyrstu veðurathugunarstöð heims nyrst á Grænlandi, hafi verið yfir frostmarki í meira en sólahring frá mánudegi fram á þriðjudag. Það gerist þrátt fyrir að sólin hafi sest þar í október og rísi ekki aftur fyrr en í mars.

Ástæðan er rakin til hlýs lofts sem flæðir úr öllum áttum inn á norðurskautið. Í norðurhluta Alaska hefur hitastigið verið allt að 25°C yfir meðaltali. Hitamet fyrir árstíma var slegið í Utquagvik þar sem hitinn náði -1°C. Það er 22°C yfir meðaltali þar.

Hitinn gæti farið yfir frostmark á norðurpólnum

Útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu hefur aldrei mælst minni miðað við árstíma nú í janúar samkvæmt tölum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA).

Hlýindakaflar af þessu tagi hafa verið reglulegir viðburðir á norðurskautinu síðustu vetur. Hitinn mældist langt yfir meðaltali veturna 2015 til 2016 og 2016 til 2017. Loftslagslíkön spá því að hlýindi af þessu tagi séu líklegri á hlýnandi jörðu þar sem hlýir loftstraumar eigi greiðari leið norður á bóginn þegar hafísinn á norðurskautinu hopar.

Spáð er áframhaldandi hlýindum á norðurskautinu næstu daga. Hitinn á sumum stöðum gæti orðið allt að 34°C hærri en vanalega. Á norðurpólnum sjálfum gæti hitinn jafnvel farið yfir frostmark á fimmtudag og sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×