Erlent

Allri umfjöllun um Ástralíu eytt úr ítarlegri skýrslu um loftslagsbreytingar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Loftslagsbreytingar hafa haft mikil neikvæð áhrif á kóralrifið mikla í Ástralíu.
Loftslagsbreytingar hafa haft mikil neikvæð áhrif á kóralrifið mikla í Ástralíu. vísir/getty
Allri umfjöllun um Ástralíu var eytt úr lokaútgáfu viðamikillar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í kjölfar þess að ástralska ríkisstjórnin greip inn í þar sem hún taldi að upplýsingar sem fram komu í skýrslunni geta skaðað ferðamennksu í landinu. 

Um er að ræða skýrslu sem Unesco, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, vann meðal annars með samtökum vísindamanna en skýrslan kemur út í dag. Í drögum að skýrslunni var fjallað ítarlega um áhrif loftslagsbreytinga kóralrifið mikla undan ströndum Ástralíu auk þess sem fjallað var um skóga Tasmaníu og Kakadú-þjóðgarðinn. Allir þessir staðir eru á heimsminjaskrá Unesco.

Þegar ástralska umhverfisráðuneytið sá drögin brást það illa við og krafðist þess að allri umfjöllun um landið yrði eytt úr skýrslunni. Will Steffen einn af skýrsluhöfundunum segir þessi viðbrögð minna á Sovétríkin. Engri annarri umfjöllun um nokkurt annað landsvæði var eytt úr skýrslunni.

Talsmaður ástralska umhverfisráðuneytisins sagði í samtali við breska blaðið Guardian að nýlega hefði það sýnt sig að neikvæð umfjöllun um heimsminjar landsins hefði haft áhrif á ferðamennsku í landinu.

Það er óumdeilt að loftslagsbreytingar hafa haft mikil neikvæð áhrif á kóralrifið. Þannig hafa óvenju mikil hlýindi gert það að verkum að rifin hafa misst mikið af lit. Þá telja vísindamenn að í norðurhluta rifsins hafi að minnsta kosti helmingur kórallanna dáið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×