Viðskipti innlent

Allir stjórnarmenn hætta

jón hákon halldórsson skrifar
Jan Petersen hefur verið forstjóri bankans um árabil.
Jan Petersen hefur verið forstjóri bankans um árabil. fréttablaðið/gva
Allir stjórnarmenn í BankNordik hyggjast segja af sér og verður ný stjórn því kjörin á næsta aðalfundi bankans sem fer fram þann 25. mars næstkomandi á Hótel Færeyjum í Þórshöfn. Bankinn var skráður tvíhliða í Kauphöll Íslands og Kauphöllina í Kaupmannahöfn árið 2007 og hefur verið skráður þar síðan.

Bankinn er með fimm útibú í Færeyjum, nítján í Danmörku og eitt á Grænlandi. Við starfi stjórnarformanns tekur Stine Boss, sem hefur setið í framkvæmdastjórn Nordea, stærsta banka á Norðurlöndunum, og Allianz.

Ársreikningur BankNordik var birtur á þriðjudag í síðustu viku. Þar kom fram að rekstrarhagnaður bankans hefði aukist um 47 prósent frá fyrra ári og næmi 157 milljónum danskra króna, eða um 3100 milljónum íslenskra króna. Bættan rekstur mátti fyrst og fremst rekja til starfseminnar í Danmörku. Þá var gert ráð fyrir að bankinn greiddi 20 milljónir danskra króna (um 400 milljónir íslenskra króna) í arð. Rekstrartekjur bankans minnkuðu aftur á móti á síðasta ári, námu 789 milljónum danskra króna, eða tæplega sextán milljörðum íslenskra króna, sem er sex prósentum minna en árið áður. Starfsmenn bankans eru 506 og hefur þeim fækkað um 106 á þremur árum.

„Það kemur alltaf að því, fyrr eða síðar, að það þarf að gera breytingar á stjórn,“ segir Klaus Rasmussen, fráfarandi stjórnarformaður bankans, í yfirlýsingu. Hann segir að stjórn bankans hafi setið í nokkuð mörg ár og leitt bankann í gegnum erfiða fjármálakreppu. Bankinn hafi þróast mikið og náð góðri stöðu á markaði og tvöfaldað stærð sína á sjö árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×