Viðskipti innlent

Allir sem borguðu í strætó í gær fá endurgreitt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ekki var hægt að breyta fargjaldinu í smáforriti Strætó í núll krónur.
Ekki var hægt að breyta fargjaldinu í smáforriti Strætó í núll krónur. vísir/ernir
Nokkur fjöldi fólks greiddi fargjaldið í Strætó í gær þrátt fyrir að frítt hafi átt að vera í alla vagna í tilefni af alþjóðlega bíllausa deginum. Ástæðan var að ekki var hægt að loka fyrir miðakaup í gegnum smáforrit Strætó en allir farþegar fá endurgreitt á næstu dögum, að sögn Jóhannesar S. Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Strætó.

„Þetta var bara fólk sem hafði keypt miða í gegnum Strætó-appið, en það var lokað fyrir baukinn. Það hafði greinilega ekki lesið auglýsingar um að það væri frítt í Strætó,“ segir Jóhannes í samtali við Vísi.

Jóhannes segir að töluvert hafi verið um kvartanir í gær en að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þetta komi upp. Ekki sé hægt að breyta fargjaldinu í forritinu í núll krónur og að þá hafi ekki verið hægt að setja tilkynningu um að fólk gæti ferðast því að kostnaðarlausu inn á appið. „Þó þetta sé tölvutækni þá er hún kannski ekki svo einföld. Við reyndum að auglýsa þetta en það voru ekki allir sem tóku eftir því.“

Jóhannes segir að þegar upp var staðið hafi allir verið sáttir, en þeir sem greiddu fargjaldið fá endurgreitt á næstu dögum. Fargjaldið hljóðar upp á 420 krónur.vísir/anton brink
Þetta sama vandamál hafi einnig komið upp á síðasta ári, sem og reglulega á menningarnótt og sautjánda júní, þegar frítt er í Strætó. „Í raun er þetta bara of flókið að eiga við þetta forrit. Það er einfaldara að endurgreiða bara öllum í einni keyrslu,“ útskýrir Jóhannes.

Aðspurður segist hann ekki hafa tölur að svo stöddu um hversu margir greiddu fargjaldið, sem hljóðar upp á 420 krónur, en að hann viti til þess að þetta hafi verið nokkur fjöldi. „Ekkert neinn gríðarlegur fjöldi, en einhver fjöldi.“

Þá segir Jóhannes að strætisvagnar hafi verið nokkuð vel sóttir í gær og að markmið dagsins hafi verið að hvetja fólk til þess að nýta sér frekar almenningssamgöngur frekar heldur en einkabílinn.

„Við erum að nota tækifærið til að markaðssetja þjónustuna samhliða þessari evrópsku samgönguviku sem nú er í gangi. Með þessu getum við kynnt strætókerfið og gefið fleiri kost á að nýta sér það.“

Bergsteinn Sigurðsson, ritstjóri Menningarinnar á RÚV, var einn þeirra sem vakti máls á þessu á samfélagsmiðlum í gær, líkt og sjá má hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×