Innlent

Allir óánægðir með verðlagsnefnd búvöru

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu ítrekar að verslun í landinu eigi þátt í sögulega lágri verðbólgu í landinu og blæs á gagnrýni Sindri Sigurgeirssonar formanns Bændasamtakanna sem sagði verslun hafa hækkað verð á mjólkurvörum um tæp sex prósent umfram hækkun á heildsöluverði undanfarin tvö ár.

„Okkar þáttur í versluninni í neysluverðsvísitölunni hefur orðið til þess að hún hefur hækkað mjög lítið. Verðbólgan í landinu er sögulega lág og hefur verið lág.

Við erum ekki að gagnrýna og segja að tæplega fjögur prósent á mjólkurvörum frá fyrsta október 2013 sé eitthvað óeðlileg. Við erum að segja að það sé óeðlilegt að ákvörðunin sé tekin af verðlagsnefnd búvöru núna.

Ég held að bændur séu ekkert ofaldir af sínu. Núna erum við í virkilega erfiðum tíma varðandi kjarasamninga. Við verðum að ná kaupmáttaraukningu til að kjarasamningar haldi,“ segir Margrét.

Hún bendir á að enginn sé ánægður með verklag verðlagsnefndar búvöru og mælir með samstöðu frekar en deilum um betri vinnubrögð. „Ég held að allir séu óánægðir með þetta. Bændur eru óánægðir, afurðarstöðvar, við og verkalýðshreyfingin. Það er enginn ánægður með þetta.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×