Íslenski boltinn

Allir búnir með sumarfríið sitt og Harpa komst ekki með til Króatíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ýmir Jóhannesson með Hörpu Þorsteinsdóttur, mömmu sinni.
Ýmir Jóhannesson með Hörpu Þorsteinsdóttur, mömmu sinni. VÍSIR/VILHELM
Stjörnukonur spiluðu í gær án Hörpu Þorsteinsdóttur í fyrsta leik sínum í riðli Garðabæjarliðsins í undankeppni Meistaradeildarinnar. Það er útlit fyrir því að markadrottning Stjörnuliðsins fari ekki til Króatíu.  

Landsliðskonan eignaðist soninn Ými fyrir aðeins sex mánuðum síðan en hún lék með íslenska landsliðinu á EM þegar strákurinn var aðeins fimm mánaða. Ýmir var þá með í för en þau mæðginin fóru ekki saman til Króatíu.

„Við náðum ekki að púsla því saman að fara með Ými með. Það eru allir búnir með sumarfríið sitt og þetta er líka rosalega erfitt ferðalag,“ sagði Harpa við Fótbolta.net í dag.

Lokaleikur Stjörnunnar í riðlinum er á móti heimastúlkum í króatíska liðinu ZNK Osijek en aðeins eitt lið kemst í 32 liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Bæði liðin unnu stóra sigra í fyrstu umferð og það lítur út fyrir að lokaleikurinn verði hreinn úrslitaleikur um sætið.

Harpa gæti farið út í leikinn á móti ZNK Osijek en það mun örugglega ekki gerast nema að einhver meiðist hjá Stjörnuliðinu samkvæmt því sem Harpa sagði við Fótbolta.net í dag.

Harpa er þó ekki í fríi frá fótbolta á meðan liðsfélagar hennar í Stjörnuliðinu eru út í Króatíu því hún æfir á meðan með 1. deildarliði HK/Víkings.  Eiginmaður hennar, Jóhannes Karl Sigursteinsson, er þjálfari HK/Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×