Lífið

Allir beita einhvers konar ofbeldi

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Elíasdóttir leikkona stendur á sviði Tjarnarbíós í kvöld með leikhópnum Ratatam. Leikverkið Suss! er byggt á raunverulegum reynslusögum af heimilisofbeldi sem er einnig viðfangsefni Laufeyjar í lokaverkefni Ljósmyndaskólans.
Elíasdóttir leikkona stendur á sviði Tjarnarbíós í kvöld með leikhópnum Ratatam. Leikverkið Suss! er byggt á raunverulegum reynslusögum af heimilisofbeldi sem er einnig viðfangsefni Laufeyjar í lokaverkefni Ljósmyndaskólans.
Heimilisofbeldi er viðfangsefni Laufeyjar Elíasdóttur leikkonu á fleiri en einn máta þessar vikurnar. Hún leikur í verkinu Suss! í Tjarnarbíói með leikhópnum Ratatam en sýningin byggir á reynslusögum gerenda og þolenda ofbeldis. Þá fæst hún við ofbeldi í námi sínu í Ljósmyndaskólanum.

„Ég held að allir beiti einhvers konar ofbeldi án þess að gera sér grein fyrir því. Ég uppgötvaði meira að segja hluti hjá sjálfri mér, eitthvað sem ég kom auga á við túlkunina á efninu og gat þá lagað í fari mínu. Maður lærir óneitanlega mikið um sjálfan sig á því að fara í gegnum þessar sögur,“ segir Laufey Elíasdóttir, leikkona og meðlimur leikhópsins Ratatam, en hópurinn sýnir nú leikverkið Suss! í Tjarnarbíói.

Verkið fjallar um heimilisofbeldi og er byggt á sönnum sögum þolenda ofbeldis en einnig gerenda og aðstandenda. Hópurinn auglýsti eftir frásögnum og upplifunum á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa, sögurnar streymdu inn. Textinn í verkinu er að miklu leyti hafður orðrétt eftir.

"Í verkinu er líka mikil myndlist. Sýningin fær að anda og áhorfendur ná andanum á milli. Þetta er dramatík en á léttum og skemmtilegum nótum.“
Þurfti fjarlægð á efnið

„Þetta eru svakalegar frásagnir, rosalega þungt efni og oft sama sagan frá mismunandi fólki, eitthvert munstur sem greinilega endurtekur sig. Í æfingaferlinu var nauðsynlegt að aftengja sig til að fá fjarlægð á sögurnar og verða þannig ónæm um tíma. Öðruvísi hefði ekki verið hægt að komast í gegn um þetta. Í lokavikunni tók maður þetta svo allt inn aftur og varð meyr inn að beini. Þegar áhorfendur stóðu upp með lófaklappi á fyrstu sýningu fór ég hreinlega að gráta. Ég átti ekki endilega von á að það myndi gerast.“

Laufey segir verkið spanna allan tilfinningaskalann og fólk geti auðveldlega sett sig inn í aðstæður. Svo margir þekki einhverja hlið á heimilisofbeldi. Eftir sýningu þakki gestir samt sem áður oft fyrir „skemmtunina“!

„Fólk kemur til okkar og segir „rosalega var þetta skemmtilegt“, en bætir svo ráðvillt við, „eða....nei!“ En það er eins og við vildum,“ segir Laufey. „Við vildum einmitt ekki fara í eitthvert melódrama þar sem efnið er svo þungt. Í verkinu er líka mikil myndlist. Sýningin fær að anda og áhorfendur ná andanum á milli. Þetta er dramatík en á léttum og skemmtilegum nótum,“ segir hún og hlær. „Við erum líka orðin ótrúlega samstillt, hópurinn. Það kom ekki upp neitt drama í æfingaferlinu sem ekki var hægt að leysa.“

Stillir upp ofbeldi

Efni leikverksins teygir sig víðar inn í verkefni Laufeyjar. Fyrir utan leiklistina stundar hún nám í ljósmyndun og vinnur þessar vikurnar hörðum höndum að lokaverkefni sínu en útskrift er áætluð í janúar. Þar tók hún einnig heimilisofbeldi fyrir.

„Ég átti náttúrlega að vera í skólanum þegar ég fór að vinna í leiksýningunni svo ég tvinnaði þetta saman. Eftir að hafa kafað svo djúpt í sögurnar á bak við Suss! var ég með dýrmætan efnivið í höndunum, sem ég varð að vinna úr. Í ljósmyndunum bý ég til bíómyndasenur eða stillur og sæki mér innblástur í ljósmyndir Gregory Crewdson. Ég stilli upp aðstæðum og byggi þær á ofbeldi. Reyni að ná fram spennunni sem er til staðar en maður veit samt ekki nákvæmlega hvað gerðist eða hvað er að fara að gerast.“

Verður ekki erfitt að hrista þessar ofbeldissögur af sér eftir að hafa kafað svona djúpt ofan í þær? „Ég hef ekki áhyggjur af því,“ segir Laufey. „Eða, ég hafði svo sem ekki hugsað svo langt,“ bætir hún hlæjandi við. „Ljósmyndasýningin verður á afmælis­daginn minn, 28. janúar. Ég þarf að vera klár í desember fyrir rýni og fæ svo mánuð til að betrumbæta verkefnið, og skrifa ritgerð, og gera heimasíðu og markaðsfræðiverkefni,“ telur Laufey upp en hefur samt engar áhyggjur af því að mestu annirnar verði mitt í jólahasarnum eða hvað? „Nei, ég er frekar róleg yfir jólunum. Ef ég næ ekki að senda jólakortin sendi ég bara kveðju á Facebook.“

"Maður lærir óneitanlega mikið um sjálfan sig á því að fara í gegn um þessar sögur.“Mynd/Eyþór
Ekki fjölskylduvænt

Annríki hefur því óneitanlega einkennt líf Laufeyjar síðustu vikur og þegar hún er spurð hvort hún sinni einhverjum áhugamálum, hvað hún sé til dæmis að lesa, segist hún ekki eiga margar mínútur aflögu. „Ég er með bók um Duchamp á náttborðinu en hef ekki lesið staf, allur sólarhringurinn fer í vinnu. Ef ég er ekki að vinna að leiksýningunni er ég uppi í skóla og rétt hitti börnin mín áður en ég fer að sofa. Þetta er ekki fjölskylduvænt vinnuferli á lokametrunum. Mér fannst samt svo fallegt að litli drengurinn minn tók eftir því hvað ég er ánægð. Hann sá hvað mér finnst þetta skemmtilegt og fyrirgaf mér því fjarveruna. Ég á tvö börn, 16 ára dóttur og 7 ára strák.“

Latur unglingur og tossi

Laufey er Hafnfirðingur í húð og hár og gekk í Víðistaðaskóla þangað til hún hætti að nenna að læra, eins og hún segir sjálf. „Mig langaði mikið í MH en var tossi í unglingadeildinni í Víðó. Flensborg var hverfisskólinn minn svo ég fór þangað,“ bætir hún við og vill ekki viðurkenna stormasamari unglingsár en gengur og gerist. „Ég get nú ekki sagt það, þó að fyrsta fylleríið hafi kannski verið tekið dálítið snemma,“ segir hún og skellir upp úr. Fæst ekki til að gefa meira upp. Eftir Flensborg lá leiðin til Bandaríkjanna.

Hollywood-glamúr

„Ég flutti til LA með dóttur mína og þáverandi kærasta þegar ég var 22 ára. Ég bjó þar í tvö ár og lærði kvikmyndaleiklist, „Hollywood style“. Ég fór stundum í einhver stjörnupartí og man eftir að hafa rabbað við Neve Campbell úti á svölum í einu slíku. Hún var að velta fyrir sér hvort hún ætti að fara í fegrunaraðgerð en ég sagði hana ekki þurfa þess,“ segir Laufey. „Svo vann ég í nokkrar vikur sem aðstoðarmanneskja Anthony Kedis, söngvara  Red Hot Chili Peppers, sótti fötin hans úr hreinsun og fór með hundinn út að labba. Ég fór í nokkrar leikaraprufur. Svo gafst ég upp á því að mega ekkert vinna þar sem ég var ekki með græna kortið og flutti heim."

Í hlutverki sínu í sýningunni Urmak­erens hjerte. Verkið var tilnefnt til Heddu-verðlaunanna í Noregi.
Norski draumurinn

„Ég kynntist síðar manninum mínum, Steingrími Eyfjörð, og árið 2010 fluttum við til Noregs með son okkar og bjuggum í þrjú ár í litlum smábæ. Ég kunni enga norsku þegar ég fór út, vann í sundlaug og á leikskóla, sem var frábært til að komast inn í tungumálið. Svo komst ég í kynni við leikhúsfólk sem var að setja upp sýningu og þau plötuðu mig í leikhópinn sinn. Leiksýningin hét Urmakerens hjerte og var tilnefnd til Heddu-verðlaunanna í Noregi.

Leikstjóri sýningarinnar, Torkil Sandsund, plataði mig í annað verkefni sem var sett upp í Bergen og ferðaðist víða um Noreg. Svo lék ég líka í sjónvarpsþætti. Hlutirnir voru eiginlega að komast á flug þegar dóttir mín og Steingrímur fengu nóg af Noregi og vildu heim,“ segir hún og hlær, þó heimferðin hafi bundið enda á norska ævin­týrið. „Heima fór ég að vinna sem forfallakennari í 150% starfi í grunnskóla til að byrja með. En svo er bara eins og listin hafi valið mig,“ segir hún.

Fjölskyldan í Dale í Sunnfjord í Noregi.
Ástin næsta viðfangsefni

Næstu sýningar Suss! eru í kvöld og á sunnudaginn en verða jafnvel fleiri. Í vor mun hópurinn svo ferðast um Norðurlöndin. „Við förum með sýninguna til Færeyja, Danmerkur og Noregs, á mínar gömlu slóðir, og jafnvel líka til Svíþjóðar,“ segir Laufey. „Við sóttum líka um styrk fyrir nýtt verkefni en það á eftir að koma í ljós hvort það gengur eftir. Það verkefni mun aftur á móti að fjalla um ástina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×