Enski boltinn

Alli búinn að leika sinn síðasta leik á tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alli hefur skorað 10 mörk og gefið níu stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Alli hefur skorað 10 mörk og gefið níu stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur. vísir/afp
Dele Alli, miðjumaðurinn efnilegi hjá Tottenham, hefur leikið sinn síðasta leik á tímabilinu.

Hinn tvítugi Alli var dæmdur í þriggja leikja bann af aganefnd enska knattspyrnusambandsins í dag fyrir að kýla Claudio Yacob í magann í leik Tottenham og West Brom í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn.

Dómari leiksins, Mike Jones, sá atvikið ekki en það náðist á myndband og á grundvelli þess var Alli dæmdur í þriggja leikja bann.

Alli, sem var útnefndur besti ungi leikmaður úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn, missir því af síðustu þremur leikjum Tottenham á tímabilinu en þeir eru gegn Chelsea, Southampton og Newcastle.

Sjá einnig: Pressan náði til sumra leikmanna Tottenham og þeir frusu

Alli þarf því væntanlega að bíða til 11. júní eftir því að spila keppnisleik en þá mætir England Rússlandi í B-riðli á EM í Frakklandi.

Tottenham náði aðeins jafntefli gegn West Brom og er því sjö stigum á eftir toppliði Leicester City þegar þremur umferðum er ólokið. Leicester getur tryggt sér titilinn með sigri á Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×