Lífið

Algjör óþarfi að fórna kökunum

Guðný Hrönn skrifar
Íris Björk Óskarsdóttir, yfirbakari 17 sorta, er orðin sjóuð í vegan bakstri.
Íris Björk Óskarsdóttir, yfirbakari 17 sorta, er orðin sjóuð í vegan bakstri. Vísir/Eyþór
Margt fólk virðist óttast að veganismi þýði endalausar fórnir góðgætis. En svo er víst ekki. Til að sýna það og sanna fengum við Dagbjörtu Þorsteinsdóttur, rekstrarstjóra 17 sorta, til að deila með okkur uppskrift að vegan köku.

Dagbjört Þorsteinsdóttir hjá bakaríinu 17 sortir hefur undanfarið orðið þess vör að mikil vakning hefur orðið í tengslum við veganisma og eftirspurnin eftir vegan kökum er alltaf að aukast. „Eftirspurnin hefur aukist undanfarnar vikur og mánuði. Og fólk er í auknum mæli að uppgötva að við bjóðum upp á þennan valkost,“ útskýrir Dagbjört.

„Nei, en þegar við byrjuðum þá höfðum við enga reynslu af vegan bakstri, og maður þarf í rauninni að hugsa þetta upp á svolítið nýjan máta þar sem undirstöðuhráefnin í venjulegri köku eru mjólkurvörur og egg,“ segir hún aðspurð hvort það sé flóknara að gera vegan kökur heldur en hefðbundnar kökur „En við erum með nokkrar góðar grunnuppskriftir sem við getum útfært á marga mismunandi máta.“

„Af okkar daglegu mismunandi 17 sortum eru tvær sortir sem eru ýmist vegan eða glútenfríar eða hvort tveggja,“ segir Dagbjört. Meðfylgjandi er svo uppskrift af vegan-köku að hætti 17 sorta.

Vegan kökudeig

300 g smjörlíki

300 g sykur

150 g rúsínur eða trönuber

450 ml vatn

1 msk. kanill

1½ tsk. negull

Allt sett í pott og látið bráðna saman og svo látið sjóða í 3 mínútur. Kælið örlítið.

450 g hveiti

1 msk. lyftiduft

1½ tsk. natron

Þurrefnum er blandað saman í skál og rúsínukryddblöndunni er blandað saman við. Deiginu er deilt á milli þriggja kringlóttra forma sem eru 22 cm í þvermál, u.þ.b. 500 g fara í hvert form. Bakað við 175°C í 12-16 mínútur. Botnarnir eru losaðir úr formunum þegar þeir eru orðnir nægilega kaldir. Einnig er hægt að baka kökuna í ofnskúffu eða brownie-formi.

Vegan vanillukrem

400 g mjúkt smjörlíki

800 g flórsykur

50 ml jurtamjólk að eigin vali

1 msk. vanilla

70 g kakó

Allt þeytt saman upp í létt smjörkrem. Smurt á milli botnanna og utan á kökuna. Ef kakan er bökuð í skúffu eða brownie-formi má líka einfaldlega smyrja yfir hana súkkulaðiglassúr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×