Innlent

Álftanesvegur lokaður lengur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Opnun nýs Álftanesvegar frestast um tvær vikur hið minnsta. Nokkur röskun verður á umferð næstu vikur.
Opnun nýs Álftanesvegar frestast um tvær vikur hið minnsta. Nokkur röskun verður á umferð næstu vikur. Fréttablaðið/Vilhelm
Opnun Álftanesvegar frestast að minnsta kosti um tvær vikur, en samkvæmt vefsíðu Vegagerðarinnar var stefnt að því að vegurinn yrði opnaður í dag.

Næstu tvær vikur verður hins vegar unnið við breikkun og lagfæringar á Álftanesvegi um Engidal milli Hafnarfjarðarvegar og Prýðishverfis. „Vegurinn er tilbúinn að langmestu leyti en það er kafli frá Hafnarfjarðarvegi og yfir að nýja hverfinu í Garðahrauni, Prýðishverfinu, sem er verið að vinna,“ segir Jóhann Bergmann, deildarstjóri hjá Vegagerðinni.

„Það er erfiðasti kaflinn, þannig séð. Þar eru lagnir sem þarf að færa til og þess lags,“ segir Jóhann. „Þennan hálfa mánuð verða miklar truflanir á umferð í kringum Prýðishverfið,“ bætir hann við.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að verði þörf á að koma upp tímabundnum hjáleiðum vegna einhverra þátta framkvæmdarinnar verði það auglýst sérstaklega.

„Það er ábyggilega hægt að finna einhverja ástæðu fyrir seinkuninni og tína til leiðir sem hefði verið hægt að fara til að gera þetta á skemmri tíma,“ segir Jóhann, aðspurður um seinkunina.

„Það er stefnt að því að þetta verði svo búið eftir hálfan mánuð. Það eru allir með fullan vilja til að láta þetta ganga hratt núna,“ segir Jóhann. Að framkvæmdinni stendur Vegagerðin í samvinnu við Garðabæ. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×