Fótbolti

Alfreð lánaður til Augsburg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason færir sig um set frá Grikklandi til Þýskalands.
Alfreð Finnbogason færir sig um set frá Grikklandi til Þýskalands. vísir/getty
Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í fótbolta, er genginn í raðir þýska 1. deildar liðsins FC Augsburg, en þetta kemur fram á heimasíðu liðsins. Alfreð kemur til þýska liðsins frá Olympiacos í Grikklandi þaðan sem hann var í láni frá spænska liðinu Real Sociedad.

Sociedad keypti Alfreð fyrir sjö og hálfa milljón evra sumarið 2014 eftir að hann varð markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar, en Alfreð náði sér aldrei á strik á Spáni.

Hjá Olympiacos hefur Alfreð heldur ekki fengið mikið að spila, en hann varð samt annar Íslendingurinn til að skora í Meistaradeildinni þegar hann tryggði Olympiacos útivallarsigur í Meistaradeildinni gegn Arsenal. Það var jafnframt fyrsti sigur gríska liðsins á enskri grundu.

Alfreð byrjaði aðeins tvo leiki fyrir Olympiacos í deildinni og kom inn af bekknum fimm sinnum, en hann var ekki í leikmannahópnum í janúarmánuði og tilkynnti félaginu að hann vildi fara. Olympiacos sagði því upp lánsamningi hans.

Augsburg fær Alfreð Finnbogason á láni frá spænska félaginu út tímabilið en liðið er á mikilli uppleið eftir að hafa rokkað á milli 2. og 3. deildar í Þýskalandi um árabil.

Augsburg komst upp í 1. deildina 2011 og eftir að vera í fallbaráttu fyrstu tvö tímabili hafnaði liðið í áttunda sæti 2014 og í fimmta sæti í fyrra. Þar með náði liðið í fyrsta sinn í Evrópusæti. Það er sem stendur í tólfta sæti þýsku 1. deildarinnar. Liðið byrjaði tímabilið illa en er nú ósigrað í síðustu sjö leikjum í deildinni; unnið fjóra leiki og gert þrjú jafntefli.

365 fékk um áramótin sýningarréttinn á þýska boltanum og verður því hægt að sjá Alfreð í beinni útsendingu reglulega. Um næstu helgi mætir liðið Ingolstadt á útivelli en aðra helgi er komið að stórleik gegn Þýskalandsmeisturum Bayern München.

Augsburg er sjötta lið Alfreðs í sex löndum í atvinnumennsku. Eftir að hann varð bikar- og Íslandsmeistari með Breiðabliki hefur Alfreð spilað með Lokeren í Belgíu, Helsingborg í Svíþjóð, Heerenveen í Hollandi, Real Sociedad á Spáni og nú síðast Olympiacos í Grikklandi.


Tengdar fréttir

„Stundum spurt mig hvers vegna ég sé að þessu“

Alfreð Finnbogason hefur upplifað rosalega góða tíma og alls ekki svo góða á fimm árum í atvinnmennsku. Þrátt fyrir að spila lítið með landsliðinu finnst honum hann vera hluti af hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×