Fótbolti

Alfreð: Leikskipulagið heppnaðist 100%

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Alfreð fagnar marki sínu.
Alfreð fagnar marki sínu. vísir/andri marinó
Alfreð Finnbogason skoraði seinna mark Íslands í 2-0 sigrinum á Tyrkjum í kvöld og er hann nú kominn með þrjú mörk í fyrstu þremur leikjum undankeppni HM.

„Það gleður mig mikið sem framherji að skora í hverjum leik og líka þegar við vinnum alla leiki. Það tvöfaldur bónus. Ég er mjög sáttur,“ sagði Alfreð eftir leikinn í kvöld.

„Allt sem við töluðum um gekk upp. Við náðum að setja pressu á þá snemma. Vorum í andlitinu á þeim allan tíman og við vissum að það er eitthvað sem þeir þola illa.

„Þeir voru byrjaði að kvarta undan veðrinu fyrir leik. Við vissum að ef við myndum spila svona eins og við gerðum að þá myndum við vinna leikinn. Það er ekki oft í fótbolta að leikskipulagði heppnist 100% en það var svoleiðis í dag,“ sagði Alfreð.

Íslenska liðið lék frábærlega í kvöld en var liðið að senda sterk skilaboð til keppinautanna í riðlinum með sigrinum?

„Þetta eru gríðarlega sterk skilaboð. Við erum á toppnum með Króatíu. Við erum að gera okkar og tökum þetta skref fyrir skref.

„Við töluðum um það fyrir þessa leiki að fjögur til sex stig væri mjög gott. Við fórum erfiðu leiðina á móti Finnlandi og í kvöld tókum við þetta á liðsheildinni og hlupum yfir þá fannst mér.“

Aron Einar Gunnarsson tók út leikbann í kvöld en öfugt við síðustu skipti sem Aron hefur vantað virtist liðið ekki sakna fyrirliðans í kvöld.

„Við vitum öll hve mikilvægur Aron er í okkar spili og það er frábært að sjá það núna að breiddin er góð í liðinu. Það gerir samkeppnina meiri og liðið betra,“ sagði Alfreð sem vildi varla rifja upp færin sem hann nýtti ekki í leiknum en hann hefð hæglega getað skorað þrennu í leiknum.

„Það var sofandaháttur hjá mér. Boltinn var aðeins fastur undir mér í seinna færinu og ég var kannski ekki alveg í toppstandi þarna í byrjun seinni hálfleiks. Auðvitað vil ég skora úr öllum færum en svo gott er lífið ekki,“ sagði Alfreð að lokum.


Tengdar fréttir

Gylfi: Vorum frábærir í fyrri hálfleik

Gylfi Þór Sigurðsson átti að vanda góðan leik á miðjunni fyrir Ísland í kvöld gegn Tyrklandi en nú með nýjan samherja á miðri miðjunni.

Jón Daði: Liðsheildin er svakaleg

Jón Daði Böðvarsson kom aftur inn í byrjunarlið Íslands eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í leiknum gegn Finnlandi.

Ragnar: Létum þetta líta auðvelt út

Ragnar Sigurðsson var traustur í íslensku vörninni í kvöld í sigrinum gegn Tyrklandi. Tyrkirnir fengu ekki færi í leiknum og varnarmenn Íslands stigu vart feilspor.

Birkir: Tyrkir sköpuðu sér varla færi í kvöld

Birkir Bjarnason var gríðarlega sáttur eftir 2-0 sigur Íslands gegn Tyrklandi í kvöld en hann sagði spilamennsku kvöldsins mun heildsteyptari en gegn Finnum og að Ísland hefði engin færi gefið á sér.

Mikið líf á Twitter yfir landsleiknum

Það er alltaf líf og fjör á samfélagsmiðlum þegar íslenska landsliðið í fótbolta leikur og sjaldan er meira fjör en þegar liðið leikur vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×