Handbolti

Alfreð: Draumur fyrir okkur en við erum samt litla liðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason er alltaf líflegur á hliðarlínunni.
Alfreð Gíslason er alltaf líflegur á hliðarlínunni. vísir/getty
Kiel er í góðum málum í einvígi sínu gegn Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir fimm marka sigur, 29-24, í fyrri leik liðanna í Sparibauknum í Kiel í gærkvöldi.

Kiel var með forskotið frá upphafi til enda og verðskuldaði fyllilega þennan glæsilega sigur, en Evrópumeistararnir þurfa nú sex marka sigur í Palau Blaugrana í Barcelona í seinni leiknum til að komast í undanúrslitin.

„Þessi úrslit eru eins og draumur sem verður að veruleika,“ sagði glaðbeittur og sigurreifur Alfreð Gíslason í viðtali eftir leikinn.

Alfreð var þó ekkert að tapa sér í gleðinni og minnti alla á að Kiel á eftir að fara til Barcelona á heimavöll Evrópumeistaranna og reyna að ganga frá einvíginu sem verður engin gönguferð í garðinum.

„Þrátt fyrir forskotið erum við litla liðið. Allir sem hafa spilað í Palau Blaugrana vita hvað ég á við. Þessi átta liða úrslit eru allt nema klár,“ sagði Alfreð Gíslason.

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands, skoraði tvö mörk fyrir Barcelona á sínum gamla heimavelli en hann varð Þýskalandsmeistari í tvígang sem leikmaður Kiel.


Tengdar fréttir

Kiel með öruggan fimm marka sigur á Barcelona

Kiel vann fimm marka sigur á Barcelona í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag en seinni leikur liðanna fer fram í Barcelona á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×