Handbolti

Alexander hættur með landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander spilaði með íslenska landsliðinu á 11 stórmótum.
Alexander spilaði með íslenska landsliðinu á 11 stórmótum. vísir/valli
Alexander Petersson hefur leikið sinn síðasta landsleik. Þetta kemur fram í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Alexander, sem leikur með Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi, hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár og segir það stærstu ástæðuna fyrir ákvörðun sinni.

„Síðustu ár hafa verið erfið hjá mér. Meiðsli hafa verið að angra mig lengi og ég hef ekki getað einbeitt mér sem skyldi með landsliðinu. Leikjaálagið með Löwen er mjög mikið. Við spilum í deildinni, bikarnum og í Meistaradeildinni og þetta kemur vitaskuld niður á líkamanum. Ég hef þurft að sleppa nokkrum mótum með landsliðinu vegna meiðsla og nú er einfaldlega kominn tími til að segja stopp. Ég get þar með einbeitt mér að félagsliði mínu,“ segir Alexander í viðtalinu við Morgunblaðið.

Alexander, sem er 36 ára, lék alls 173 landsleiki og skoraði í þeim 694 mörk.

Alexander fór með íslenska landsliðinu á 11 stórmót. Það fyrsta var HM í Túnis 2005 og það síðasta EM í Póllandi 2016.

Alexander var hluti af íslenska liðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlauna á EM 2010. Hann var valinn íþróttamaður ársins á Íslandi 2010.

Alexander var markahæsti leikmaður Íslands á HM 2011 í Svíþjóð og var valinn í úrvalslið mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×