Skoðun

Aldursfordómar á Íslandi

Erna Indriðadóttir skrifar
Enginn vill vera karlremba eða ráðast með dónaskap á fólk af öðru þjóðerni. Fólk fær fyrir hjartað ef það er sakað um fordóma í garð kvenna, samkynhneigðra eða útlendinga. En sama fólk virðist ekki skilja fordóma gagnvart eldra fólki, sem úir og grúir af í okkar samfélagi. Þeirra verður vart á vinnustöðum, þegar reynt er að bola út eldri starfsmönnum til að yngja upp. Þeirra verður vart þegar talað er niður til eldra fólks og líka þegar horft er í gegnum eldra fólk, eins og það sé ekki til.

Útbelgdir af aldursrembu

Þegar spurðist út að RÚV ætlaði að setja á dagskrá umræðuþátt með stjórnendum af eldri kynslóðinni brugðust margir ókvæða við. Umsjónarmönnunum var líkt við steingervinga og risaeðlur. „Hvar er unga fólkið?“ var spurt og einn skrifaði á Facebook: „Það eru nokkur hjúkrunarheimili aldraðra í Reykjavík. Þar hefði eflaust mátt finna þáttastjórnendur fyrir RÚV.“ Þá var nýlega rætt um það í fremur neikvæðum tón að sjónarmið „sjötugra“ væru ráðandi í þjóðmálaumræðunni.

Aldursfordómar sjálfsagðir

Menn hefði rekið í rogastans, ef þetta hefði verið umræða um konur, samkynhneigða eða útlendinga. En þegar eldra fólk á í hlut, eru fordómar af þessu tagi leyfilegir, jafnvel sjálfsagðir. Margir sem komnir eru um sextugt eða eru jafnvel yngri, eiga erfitt með að fá starf ef þeir einhverra hluta vegna missa störfin sem þeir hafa verið í. Fæstir eru til í að tjá sig um það opinberlega, enda vilja þeir ekki eyðileggja fyrir sér í atvinnuleitinni. Á sama tíma er rætt um að hækka eftirlaunaaldurinn í landinu! Þetta er áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að fólki sem er 55 ára og eldra mun fjölga um 45% á næstu 15 árum. Þetta er einnig mismunun, sóun á reynslu og þekkingu þessa fólks og brot á mannréttindum þess.




Skoðun

Sjá meira


×