Innlent

Aldrei fleiri skemmtiferðaskip í Reykjavíkurhöfn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skipin Celebrity Eclipse og Nautica við Skarfabakka.
Skipin Celebrity Eclipse og Nautica við Skarfabakka. vísir/vilhelm
Fimm skemmtiferðaskip eru nú í Reykjavíkurhöfn og segist Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, ekki muna eftir fleiri skipum á einum og sama deginum. Eitt skipanna er við Korngarð, tvö við Skarfabakka, eitt við Miðbakka og eitt við Faxagarð.

„Eitt skipið átti nú að koma í gær en það var við Grænland og lenti í vandræðum vegna íss. Það tafðist því og kom ekki fyrr en í dag,“ segir Ágúst í samtali við Vísi. Samtals koma 4775 farþegar með skipunum fimm.

Ágúst segir að í sumar verði skipakomur 103 talsins og að með þeim komi rétt rúmlega 100 þúsund farþegar. Það séu aðeins fleiri skip en komu seinasta sumar en svipaður farþegafjöldi svo um smærri skip er að ræða í ár.

Aðspurður hvort að nú komi skip á hverjum degi til hafnar í Reykjavík segir Ágúst svo vera.

„Já, það er nánast yfir hásumarið skip á hverjum degi, frá því í júlí og fram í ágúst.“

Jóhann Bogason, starfsmaður hjá TVG Zimzen sem þjónustar skemmtiferðaskipin, segir mikið umstang fylgja því að þjónusta stór skemmtiferðaskip.

Það er því nóg að gera hjá starfsmönnum fyrirtækisins í dag en þeir sjá meðal annars um að útvega varahluti fyrir skipin ásamt öllum samskiptum við höfn, toll og útlendingaeftirlit.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×