Erlent

Aldrei fleiri konur kosnar á þing í Íran

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Kosningar í Íran fóru fram á föstudag.
Kosningar í Íran fóru fram á föstudag. Fréttablaðið/EPA
Umbótasinnaðir flokkar, hliðhollir Rouhani Íransforseta, unnu stórsigur í írönsku þingkosningunum sem fóru fram á föstudaginn. Úrslit voru tilkynnt um helgina.

Listi vonar, bandalag umbótaflokka, fékk 41,7 prósent atkvæða og 121 þingsæti í 290 sæta löggjafasamkundunni. Bandalag sjíta-íslamskra íhaldsflokka galt afhroð í kosningunum og fékk 28,2 prósent atkvæða og 83 þingmenn. Einstaklingsframboð og smærri flokkar fengu 84 þingsæti.

Listi umbótasinna fór með sigur af hólmi í kosningunum.
Um var að ræða aðra umferð kosninga en samkvæmt lögum í Íran þurfa frambjóðendur að ná minnst 25 prósentum atkvæða í hverju kjördæmi fyrir sig til að hljóta kjör.

Umbótasinnar náðu ekki hreinum meirihluta en eru nægilega sterkir til að koma löggjöf í gegn um þingið með samstarfi við smærri stjórnmálaflokka.

Það vekur einnig athygli að aldrei hafa jafn margar konur verið kosnar á þingið en sautján konur voru kosnar. Þrátt fyrir að sautján sé ekki mikill fjöldi á 290 manna samkundunni eru þetta mikil tíðindi í Íran.Þá hafa aldrei jafn fáir klerkar verið kosnir á þingið. Frá byltingunni í Íran 1979 hefur klerkastéttin verið afar áhrifamikil. Eftir byltinguna voru 164 klerkar kosnir en nú 16.

Niðurstöðurnar þykja afar góð tíðindi fyrir Rouhani Íransforseta og eru túlkuð sem velvilji almennings gagnvart kjarnorkusamkomulaginu sem Íranar undirrituðu fyrr á árinu. Talið er að Rouhani muni eftir kosningarnar leggja fram röð frumvarpa sem er ætlað að bæta mannréttindi í Íran og réttarfar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×