Viðskipti innlent

Aldrei fleiri erlendir ferðamenn verið á Íslandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Um 110.600 erlendir ferðamenn fóru frá Íslandi í júní. Það eru um 20.700 fleiri en í júní í fyrra og nemur aukningin 23,1 prósenti á milli ára. Aldrei áður hafa jafn margir ferðamenn verið hér á landi í júní.

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu voru Bandaríkjamenn fjölmennastir þeirra sem komu hingað til lands í maí, eða 19,2 prósent. Þjóðverðar voru næstflestir eða 15,6 prósent. Þar á eftir komu Bretar, 8,6 prósent, Frakkar, 6,4 prósent og Norðmenn, 5,7 prósent.

Samtals voru 10 fjölmennustu þjóðernin með 74% af heildarfjölda ferðamanna.

„Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum, Kanamönnum, Þjóðverjum og Kínverjum mest á milli ára. Þessar fimm þjóðir báru að stórum hluta uppi aukninguna í júní milli ára eða um 54% af heildaraukningu,“ segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Þreföldun á tólf árum

Ferðamönnum hafði fjölgað um rúmlega þriðjung í maí í ár, samanborið við maí árið 2002.

„Fjölgun hefur að segja má verið öll ár, að undanskilinni smávægilegri fækkun 2009 og 2010. Fjölgunin hefur þó verið mismikil, mest 25% á milli  áranna 2006 og 2007 og þrívegis yfir 20%.“

Á þessu ári hafa 401.772 erlendir ferðamenn farið frá Íslandi sem er um 90 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Það samsvarar 29 prósent aukningu ferðamanna á á milli tímabila.

Um 41 þúsund Íslendingar fóru frá landi í júní, sem er um 4.900 fleiri en í júní í fyrra. Frá áramótum hafa 184.820 farið út, en það samsvarar 8,5 prósent aukningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×