Innlent

Aldraðir saka rekstrarfélag um hótanir

Höskuldur Kári Schram skrifar
Aldraðir íbúar í þjónustu- og öryggisíbúðum Naustavarar í Kópavogi saka rekstrarfélagið um hótanir í sinn garð eftir að félagið tapaði dómsmáli sem þeir höfðuðu. Félagið hefur gefið íbúum frest til mánaðamóta til að skrifa undir nýja leigusamninga og afsala sér um leið öllum kröfum á félagið.

Um að ræða íbúðir sem Naustavör á við Boðaþing í Kópavogi en félagið er í eigu Sjómannadagsráðs og rekið samhliða Hrafnistu.

Hópur íbúa sakaði félagið um að nota hússjóðinn til að standa straum af óskyldum kostnaði og krafðist þess að fá endurgreitt. Heildarupphæðin hleypur á milljónum króna. Kærunefnd húsnæðimála tók undir kvartanir íbúa en þeir þurftu þó að lokum að leita til dómstóla.

Héraðsdómur dæmdi í málinu í síðasta mánuði og féllst á allar kröfur íbúa og þarf Naustavör að endurgreiða oftekin húsgjöld fjögur ár aftur í tímann.

Í síðustu viku sendir rekstrarfélagið bréf á alla íbúa þar sem þeim er gefin ein vika til að skrifa undir nýjan leigusamning og falla ennfremur frá kröfu um endurgreiðslu á hússjóði. Þeir sem ekki skrifa undir fá uppsögn á leigusamningi.

Þeir íbúar sem fréttastofa hefur talað við eru afar reiðir vegna þessa og saka fyrirtækið um hótanir.

Pétur Kjartansson lögfræðingur sem hefur aðstoðað íbúana í málinu segir að aðgerðir rekstrarfélagsins séu ólöglegar. Hann furðar sig ennfremur á því að félagið ætli sér ekki að virða niðurstöðu dómstóla. 

„Núna stillir Naustavör því samt þannig upp að ef menn falla ekki frá þeim kröfum sem búið er að dæma þeim þá verða þeir reknir úr húsnæðinu,“ segir Pétur.

Hann segir að íbúarnir séu í erfiðri stöðu og vilji ekki yfirgefa íbúðir sínar.

„Þarna er verið að níðast á þeim sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér,“ segir Pétur.

Sigurður Garðarsson framkvæmdastjóri Naustavarar segir þetta erfitt mál fyrir félagið sem sé rekið án allra arðsemismarkmiða. Hins vegar þurfi að breyta leigusamningi út af niðurstöðu héraðsdóms til að ekki þurfi að draga úr þjónustu við íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×