Fótbolti

Albert er þakklátur Phillip Cocu | Fékk að velja á milli Orlando og Indónesíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Vísir/Getty
Janúarmánuður ætlar að vera heldur betur eftirminnilegur fyrir hinn tvítuga Albert Guðmundsson sem er að stimpla sig inn bæði hjá A-landsliðinu og liði PSV.

Albert Guðmundsson opnaði markareikning sinn með íslenska landsliðinu í Indónesíuferðinni á dögunum og átti síðan frábæra innkomu hjá PSV á sunnudaginn, innkomu sem var þriggja stiga virði.

Albert hefði hinsvegar aldrei farið í æfingaferðina með íslenska landsliðinu nema af því að hann fékk sérstakt leyfi frá þjálfara PSV Eindhoven, Phillip Cocu.

Albert hefur fengið mikla athygli í Hollandi eftir innkomu sína um helgina þar sem hann lagði upp sigurmark liðsins í uppbótartíma eftir að hafa komið inná sem varamaður aðeins nokkrum mínútum áður.

Albert fékk að velja á milli æfingaferða. Hann hefði getað farið með liði PSV í æfingaferð til Orlando í Bandaríkjunum en valdi það að stimpla sig inn hjá íslenska A-landsliðinu.

Eftir að hafa lagt upp fjögur mörk í fyrri leiknum á móti Indónesíu og skorað þrjú mörk í þeim síðari þá sýndi Albert að hann getur vel verið í HM-hóp Íslands næsta sumar.

„Ég fékk að velja sjálfur. Hann lofaði mér að staða mín innan PSV liðsins myndi ekki breytast sama hvað ég gerði,“ sagði Albert í viðtali við Eindhoven Dagblad.





„Ég er mjög þakklátur honum fyrir það. Það eru ekki allir þjálfarar sem myndu gefa leikmanni sínum slíkt frelsi ekki síst þar sem að leikirnir í Indónesíu voru ekki á opinberum landsleikjadögum,“ sagði Albert.

Albert launaði Phillip Cocu þetta strax með því að tryggja liðinu þrjú stig á móti Heracles Almelo á sunnudaginn. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað hann fær svo að spila mikið með aðalliði PSV Eindhoven í næstu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×