Íslenski boltinn

Albert: Barnalegt af okkur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Albert Brynjar í leik með Fylki fyrr í sumar.
Albert Brynjar í leik með Fylki fyrr í sumar. vísir/anton
Albert Brynjar Ingason framherji Fylkis var niðurlútur eftir jafnteflið gegn Víkingum í Fossvoginum í dag. Hann sagðist vera þreyttur á því að Fylkisliðið fengi á sig mörk í lok leikja sinna.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi og endurtekin saga frá því fyrr í sumar að fá á sig mark seint. Þetta er barnalegt af okkur að halda ekki stöðunum betur þegar við erum komnir yfir,“ sagði Albert Brynjar í samtali við Vísi eftir leik.

„Mér fannst við eiga meira skilið. Mér fannst þeir kannski byrja leikinn betur en svo komum við vel til baka. Svo fannst mér við stjórna leiknum og náum að komast yfir. Eftir það finnst mér við barnalegir. Við erum að vinna boltann hátt á vellinum og tapa svolítið stöðunum í stað þess að halda skipulagi og sigla þessu heim. Við þurftum þrjú stig í dag en í staðinn fáum við mark í andlitið,“ bætti Albert við.

Næst eiga Fylkismenn heimaleik gegn botnliði Þróttar og verða Árbæingar hreinlega að taka þrjú stig ætli þeir sér að halda sæti sínu í deildinni.

„Það er ekki margt sem við þurfum að laga í okkar leik til þess að stigin fari að detta í hús. Það er fullt sem við getum tekið með okkur héðan í dag. Við verðum að mæta dýrvitlausir í næsta leik og vinna næstu tvo leiki,“ sagði Albert Brynjar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×