Innlent

Álagsgreiðslurnar voru orðnar hluti launanna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kjararáð birti sérstaka endurskoðun á kjörum dómara í lok desember.
Kjararáð birti sérstaka endurskoðun á kjörum dómara í lok desember. Vísir/GVA
Ekki gefur rétta mynd af sérstakri endurskoðun kjararáðs á launum dómara í lok desember að horfa til launa þeirra fyrir breytingu án þess að taka tillit til álagsgreiðslna sem upphaflega áttu að vera tímabundnar.

Skúli Magnússon formaður Dómarafélags Íslands
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, segir að sé tekið tillit til heildargreiðslna til dómara eftir ákvörðun kjararáðs í nóvember um almenna 9,3 prósenta afturvirka launahækkun, þá nemi hækkunin eftir endurskoðun ráðsins í desember 7,6 prósentum, ekki tugum prósenta eins og greint hafi verið frá.

Útreikningur Fréttablaðsins 31. desember síðastliðinn miðaði við þær upplýsingar sem fyrir liggja á vef kjararáðs, en þar kemur fram að greiða hafi átt tímabundnar álagsgreiðslur (20 yfirvinnutímaeiningar á mánuði) á tímabilinu frá 1. febrúar 2011 til 31. janúar 2013. Þær greiðslur voru því ekki hafðar með í útreikningi blaðsins.

Skúli segir hins vegar að álagsgreiðslurnar hafi verið orðnar fastar í sessi. Samkvæmt gögnum sem hann sendir blaðinu hafði þeim verið fjölgað um fimmtán frá ákvörðun kjararáðs 2011 og höfðu ekki verið aflagðar.

„Staðreyndin er sú að með þessum úrskurði kjararáðs hækkuðu heildarlaun dómara um nálægt sjö prósent,“ segir hann og bætir við að staðan hafi verið orðin þannig hjá dómurum að hlutfall grunnlauna, af heildarlaunum, hafi verið komið niður fyrir 70 prósent.

„Dómarar voru að fá um það bil einn þriðja af sínum launum í tímabundnum greiðslum og slíkt fyrirkomulag er í raun og veru ekki samræmanlegt sjálfstæði dómsvaldsins,“ segir Skúli.


Tengdar fréttir

Gagnrýnir ákvörðun kjararáðs

Laun æðstu embættis- og ráðamanna þjóðarinnar hafa hækkað um mörg hundruð þúsund krónur á undanförnum mánuðum. Um áramótin hækkuðu laun dómara um allt að 50 prósent samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Dómarar fá tuga prósenta launahækkun

Störf dómara eiga sér ekki hliðstæðu á almennum vinnumarkaði. Tryggja verður sjálfstæði þeirra segir kjararáð. Kjör dómara eigi ávallt að vera meðal hinna bestu sem ríkisvaldið geti veitt. Hæstaréttardómarar hækka um 48 prósent

Hugleiðingar um dómskerfið

Undanfarið hefur talsvert verið rætt og ritað um dómskerfið, ekki síst í ljósi þess að hluti uppgjörs bankahrunsins hefur farið fram í réttarsölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×