Viðskipti innlent

Al-Thani málið í Hæstarétti: „Ef það er óheppilegt að dómari taki sæti í máli, þá er hann vanhæfur”

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar


"Í orðum saksóknara kristallast sá vandi sem snýr að sérfróðum meðdómanda í málinu,“ segir verjandi Magnúsar Guðmundssonar. Magnús er til hægri á myndinni.


"Í orðum saksóknara kristallast sá vandi sem snýr að sérfróðum meðdómanda í málinu,“ segir verjandi Magnúsar Guðmundssonar. Magnús er til hægri á myndinni. Vísir/GVA
Verjandi Magnúsar Guðmundssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, lagði áherslu á það í málflutningsræðu sinni í Al-Thani málinu í morgun, að staða hans væri önnur en annarra sakborninga í málinu.

Sagði verjandinn, Kristín Edwald, að meint brot ákærða falli ekki undir íslenska refsilögsögu; Magnús hafi búið og starfað í Lúxemborg þegar meint brot hans áttu sér stað.

Þá hafi hann í raun ekki verið starfsmaður Kaupþings á Íslandi heldur Kaupþings í Lúxemborg. Kaupþing í Lúxemborg var ekki útibú Kaupþings á Íslandi heldur sjálfstæður banki á erlendri grundu sem laut eftirliti og löggjöf stjórnvalda þar.

Hélt verjandinn því þar af leiðandi fram að skilyrði hegningarlaga um að brot sé framið innan íslenska ríkisins sé ekki fullnægt í tilfelli Magnúsar. Þar af leiðandi beri að sýkna hann af ákæru sérstaks saksóknara.

Óskiljanleg niðurstaða héraðsdóms við mat á trúverðugleika vitna


Kristín gerði sér svo mat úr orðum Björns Þorvaldssonar, saksóknara í málinu, frá því í gær þegar hann sagði það „óheppilegt” að sérfróður meðdómandi í málinu í héraði átti í lánaviðskiptum við Kaupþing.



„Í orðum saksóknara kristallast sá vandi sem snýr að sérfróðum meðdómanda í málinu. Ef það er óheppilegt að dómari taki sæti í máli þá hefur aðili réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé vanhæfur. Svo ef að það er óheppilegt að dómari taki sæti í máli þá er hann vanhæfur,” sagði Kristín.

Líkt og aðrir verjendur ræddi Kristín svo um trúverðugleika vitna og mat héraðsdóms á framburðum þeirra. Sagði hún óskiljanlegt hvers vegna héraðsdómur leit fram hjá framburðum fjögurra lykilvitna vegna þess að þau höfðu átt fundi með verjendum meðákærðu. 



„Hvorki Magnús né verjandi hans voru í samskiptum við vitnin en þó kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ekki beri að taka vitnisburð þeirra til greina því þau funduðu með öðrum aðilum málsins.”

Málflutningi í Hæstarétti á að ljúka í dag og málið verður svo dómtekið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×