Erlent

Al-Baghdadi „alvarlega særður eftir loftárás“

Atli Ísleifsson skrifar
Heimildarmaður Guardian segir að al-Baghdadi hafi þó enn ekki tekið aftur við daglegri stjórn ISIS.
Heimildarmaður Guardian segir að al-Baghdadi hafi þó enn ekki tekið aftur við daglegri stjórn ISIS. Vísir/AFP
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna ISIS, er alvarlega særður eftir loftárás í vesturhluta Íraks. Breska blaðið Guardian hefur þetta eftir heimildarmanni sínum innan hryðjuverkasamtakanna.

Heimildarmaður Guardian segir al-Baghdadi hafa særst í loftárás Bandaríkjahers og bandamanna þeirra í mars síðastliðinn. Segir hann að sárin hafi í upphafi verið lífshættuleg en að líðan al-Baghdadi hafi síðan batnað.

Sami heimildarmaður segir að al-Baghdadi hafi þó enn ekki tekið aftur við daglegri stjórn ISIS.

Í frétt Guardian segir að sár leiðtogans hafi leitt til neyðarfunda hjá næstráðendum ISIS sem hafi í fyrstu talið að al-Baghdadi myndi láta lífið af sárum sínum og gert ráðstafanir til að útnefna nýjan leiðtoga.

Aðrir heimildarmenn blaðsins – embættismaður frá einu Vesturlandanna og ráðgjafi írakskra stjórnvalda – segja loftárásina hafa verið gerða í Nineveh-héraði, nærri sýrlensku landamærunum þann 18. mars.

Fréttir hafa þó áður borist af því að al-Baghdadi hafi særst í árásum. Þær hafa ekki verið á rökum reistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×