Innlent

Ákveðið að láta náttúruna njóta vafans

Svavar Hávarðsson skrifar
Kjúklingabú nærri vatnsverndarsvæði er talið fullkomið óráð.
Kjúklingabú nærri vatnsverndarsvæði er talið fullkomið óráð. fréttablaðið/FriðrikÞór
Sláturfélag Suðurlands er hætt við að reisa stórt kjúklingabú í landi Jarlsstaða við mörk vatnsverndarsvæðis í Landsveit. Í búinu átti að ala 60 þúsund fugla á hverjum tíma en stjórn Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps varaði fastlega við áformunum í bréfi til byggingarfulltrúa.

Málið er ekki afgreitt hjá sveitarfélaginu en SS ætlar að byggja upp starfsemi sína annars staðar vegna athugasemda sem komið hafa fram.

Í bréfi framkvæmdastjóra Vatnsveitunnar segir að frekari rannsóknir á grunnvatnsrennsli og jarðfræði svæðisins skorti áður en ákvarðanir um uppbyggingu einkaaðila yrðu teknar enda um mikilvæga samfélagslega hagsmuni að ræða sem í verndun vatnsbóla felst.

Í bréfinu er einnig sterklega varað við áformum vaxandi byggðar sumar­húsa með rotþróm í ofanverðri Landsveit. Grunnvatnsstraumar liggja beint að lindinni sem um ræðir – Kerauga, sem er eitt stærsta einstaka lindarauga á Íslandi.

Árni Hjartarson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, segir í áliti sínu að svæðið í Landsveit sé viðkvæmt fyrir mengun. Margt bendi til að fyrirhugað kjúklingabú yrði á vatnasviði Kerauga­lindarinnar.

„Ákvarðanir um starfsleyfi fyrir hvers konar rekstur rétt við mörg vatnsverndarsvæðisins verður að taka að vandlega yfirveguðu ráði,“ skrifar Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×