Lífið

Ákvað að flytja eigið ljóð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þóra Ragnarsdóttir, kennari í Salaskóla og kynnir keppninnar, Bjartur Jörfi Ingvason úr Snælandsskóla sem varð í þriðja sæti, Aníta Daðadóttir í Salaskóla, sigurvegari, og Björn Breki Steingrímsson í Salaskóla sem varð í öðru sæti.
Þóra Ragnarsdóttir, kennari í Salaskóla og kynnir keppninnar, Bjartur Jörfi Ingvason úr Snælandsskóla sem varð í þriðja sæti, Aníta Daðadóttir í Salaskóla, sigurvegari, og Björn Breki Steingrímsson í Salaskóla sem varð í öðru sæti.
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn keppni sem tengist lestri en þegar ég var sjö ára sigraði ég í söngvakeppni á fjölskyldudegi í Hrísey. Ég söng Stóð ég úti í tunglsljósi,“ segir Aníta Daðadóttir, sem bar sigur úr býtum í upplestrarkeppninni í Kópavogi.

Hún er nemandi í Salaskóla og í sjöunda bekk eins og aðrir þátttakendur í keppninni.

Spurð hvort hún hafi æft lesturinn mikið, svarar Aníta: „Ekkert mjög en ég var svona búin að fara vel yfir efnið. Við lásum kafla úr sögunni Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur og ljóð eftir Anton Helga Jónsson. Svo flutti ég ljóð eftir sjálfa mig sem ég samdi bara daginn áður.“

Var skylda að yrkja ljóð? „Nei, við áttum að flytja ljóð að eigin vali og ég ákvað að semja mitt eigið.“

Ertu vön að koma fram? „Já, ég hef oft komið fram á tónleikum með mömmu minni sem heitir Regína Ósk og er söngkona.“

Hvað fékkstu í verðlaun? „Ég fékk gjafabréf í Íslandsbanka upp á 20 þúsund og svo fékk ég ljóðabók eftir Anton Helga Jónsson, blóm og viðurkenningarskjal.

Ljóðið hennar Anítu

Götubörn eiga engan að.

Ganga um göturnar, leita að næturstað.

Þau eiga ekki neitt,

mér þykir það leitt.

Föst í vítahring.

Fátækt allt í kring.

Ekkert frelsi, ekkert líf.

Götubörn eiga engan að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×