Lífið

Akureyringur kennir stjörnum á snjóskauta

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ingi fer heljarstökk á snjóskautunum. Hér er hann staddur í Austurríki.
Ingi fer heljarstökk á snjóskautunum. Hér er hann staddur í Austurríki. mynd/Deadcatdigital
„Ég setti nýtt hraðamet þegar ég var úti í Austurríki um daginn, var á 111 kílómetra hraða,“ segir Ingi Freyr Sveinbjörnsson sem hefur náð eftirtektarverðum árangri á snjóskautum.

Snjóskautunum er best lýst sem skíðaklossum með áföstum litlum skíðum undir sólanum.

„Ég fór bara og fann bröttustu brekkuna sem ég fann í Austurríki. Hún var mjög brött, nánast eins og að vera í frjálsu falli,“ segir hann og er þó hvergi banginn. „Það er aðallega þegar ég er að fara á stóran pall og að reyna eitthvað nýtt, þá kemur smá kvíðahnútur í magann en það er bara gaman.“

Ingi kynntist skautunum fyrir átta árum í gegn um vin sinn. „Þetta eru skautar sem voru smíðaðir fyrst fyrir mörgum árum og fluttir inn til Akureyrar en seldust í rauninni ekkert rosalega. Svo lést maðurinn sem flutti þetta inn,“ segir hann og bætir við: „Barnabarn hans er besti vinur minn og ég fann gamalt par hjá honum. Þannig byrjaði ég að fikta við þetta.“

Eftir það varð ekki aftur snúið og fyrirtækið Sled Dogs hafði samband við Inga. „Ég átti aldrei von á því að þetta yrði neitt meira en bara ég að renna mér í Hlíðarfjalli. Þeir sáu myndband af mér og báðu mig um að koma út og sjá hvað ég væri að gera.“

Ingi ásamt félaga sínum við tökur á raunveruleikaþættinum The Jump.
Úr varð samstarf þeirra á milli og hefur Ingi meðal annars ferðast til Suður-Kóreu að kynna snjóskautana. „Þetta er að detta inn þar og er að verða svolítið heitt,“ segir Ingi en hann er að mati fyrirtækisins sá fremsti á snjóskautum í heiminum. „Þeir vilja meina það, ég er sá eini sem er að stökkva og taka heljarstökk á þessu,“ segir hann hógvær.

Í janúar hélt Ingi til Austurríkis og þjálfaði keppendur í breska raunveruleikaþættinum The Jump. „Þetta er raunveruleikaþáttur þar sem sextán misfrægir einstaklingar prufa alls konar vetrarsport og keppa sín á milli.“ Meðal þátttakenda voru Steve-O úr Jackass og hin einfætta Heather Mills, fyrrverandi fyrirsæta og fyrrverandi eiginkona bítilsins Pauls McCartney. 

„Hann var fyrstur til þess að ná þessu, þurfti mjög lítið að kenna honum. Setti þetta bara á sig og dreif sig,“ segir Ingi um Steve-O en hann er sjálfur mikill aðdáandi Jackass og hefur fylgst með þáttunum í mörg ár. 

Næsta vetur fer hann aftur til Suður-Kóreu og vonir standa til að önnur sería verði framleidd af The Jump en næst á dagskránni eru Iceland Winter Games á Akureyri. „Ég ætla að vera með nokkur pör og leyfa fólki að prófa. Það er aldrei að vita nema maður kíki á brautina og verði með einhverja stæla ef færið er gott,“ segir Ingi hress að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×