Innlent

Akureyringar telja menningu mismunað eftir landsvæðum

Sveinn Arnarsson skrifar
Í minnisblaði framkvæmdastjóra Akureyrarstofu er þróun framlaga til Listasafns Íslands og Þjóðleikhússins skoðuð. Þar kemur fram mikill munur á þróun úthlutunar til menningarmála i Reykjavík og á Akureyri.
Í minnisblaði framkvæmdastjóra Akureyrarstofu er þróun framlaga til Listasafns Íslands og Þjóðleikhússins skoðuð. Þar kemur fram mikill munur á þróun úthlutunar til menningarmála i Reykjavík og á Akureyri. vísir/pjetur
Bæjarstjórn Akureyrar telur menningu og listum mismunað eftir svæðum og telur framlög til menningar á Akureyri óásættanleg og að ekki verði unað við það lengur. Framlög til stofnana ríkisins á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað um hundruð milljóna króna á sama tíma og framlög ríkis til sambærilegra stofnana á Akureyri hafa staðið í stað.

Menningarsamningur við ríkið var ræddur á bæjarstjórnarfundi á Akureyri síðastliðinn þriðjudag og samþykkti bæjarstjórnin samhljóma harðorða bókun um fjárlagafrumvarpið 2016. Í minnisblaði sem lagt var fyrir bæjarstjórn kemur fram að frá árinu 2010 vanti um 65 milljónir króna til menningar og lista á Akureyri, ef úthlutun ríkisins hefði fylgt verðlagsþróun.

„Til að bíta höfuðið af skömminni er nú í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 að finna þá köldu kveðju að framlag ráðuneytisins til samstarfssamningsins verði óbreytt áfram eða 138 milljónir króna,“ segir í minnisblaði sem unnið var af Þórgný Dýrfjörð, framkvæmdastjóra Akureyrarstofu.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, telur þessa misskiptingu óásættanlega. 

„Það dylst engum að þessi skipting er óásættanleg og við þurfum að breyta þessu. Samningar um menningu og listir á Akureyri hafa ekki einu sinni fylgt verðlagsbreytingum frá árinu 2011.

Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við menntamálaráðherra um menningarsamninga á landsbyggðinni á þingi og mun tala fyrir sanngjarnari úthlutunum til menningarmála utan höfuðborgarsvæðisins í fjárlaganefnd,“ segir Brynhildur.

Jóni Páli Eyjólfssyni, leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar, finnst þessi samanburður sláandi millli höfuðborgar og landsbyggðar en telur það ekki nýjar fréttir.

„Það er merkilegt að mönnum komi þetta á óvart, því þetta er staðreynd og hefur verið svona lengi. Hér á Akureyri er sama verðlagsþróun og í borginni og því þurfum við alveg eins og annars staðar að taka mið af verðlagsbreytingum en virðumst ekki fá leiðréttingu á því í fjárlögum,“ segir Jón Páll. „Þrátt fyrir þessa stöðu erum við að framleiða tvö ný verk fyrir börn á þessu leikári.“

Ekki náðist í mennta- og menningarmálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×