Innlent

Akureyri leggst gegn nýju umhverfismati

Tjörnes Bakki við Húsavík þar sem kísilmálmverksmiðja PCC á að rísa.FRéttablaðið/Pjetur
Tjörnes Bakki við Húsavík þar sem kísilmálmverksmiðja PCC á að rísa.FRéttablaðið/Pjetur
OrkumálBæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar segir kröfu Landverndar um nýtt umhverfismat fyrir raflínur Landsnets frá Þeistareykjum við Kröflu að Bakka á Húsavík til þess fallna að valda samfélaginu í Norðurþingi skaða. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir öruggt að kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka þurfi 58 megavött af raforku. Það sé um tífalt minni raforkuþörf en þegar álvershugmyndir voru uppi á svæðinu. „Það er í raun sérkennilegt að saka okkur um að gera eitthvað rangt í þessum efnum. Sveitarfélögin hefðu átt að sjá sóma sinn og hag í því að sækja um nýtt umhverfismat á sínum tíma þegar vitað var að álver myndi ekki rísa á svæðinu,“ segir Guðmundur. „Ég vísa því alfarið ábyrgðinni yfir á sveitarfélögin.“ Bæjarstjórn Akureyrar segir Landvernd koma allt of seint með málið nú þegar framkvæmdir séu við það að hefjast við fyrsta áfanga verksmiðju PCC. Það umhverfismat sem liggur nú fyrir er frá árinu 2010 og miðast við mun stærri framkvæmdir en nú er stefnt að í fyrsta áfanga. „Hafa ber einnig í huga að uppbygging raflínunnar er mikilvægur liður í að styrkja flutningskerfi raforku á Norðausturlandi. Krafa Landverndar um nýtt umhverfismat er því til þess fallin að valda samfélaginu í Norðurþingi og nágrannabyggðum skaða,“ segir í bókun sem var samþykkt með tíu atkvæðum í bæjarstjórn. Fulltrúi VG sat hjá. Logi Már Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar, segir það skipta miklu máli að uppbygging geti hafist í Norðurþingi. „Sterk nágrannasveitarfélög skipta Akureyri miklu máli og þar er Norðurþing ekki undanskilið. Atvinnuuppbygging á Bakka hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun á öllu svæðinu og þess vegna vildum við láta í okkur heyra,“ segir Logi Már Einarsson.sveinn@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×