Skoðun

Akureyri er góður valkostur

Guðmundur Baldvin Guðmundsson skrifar
Ákvörðun stjórnvalda um að staðsetja höfuðstöðvar Fiskistofu á Akureyri er fagnaðarefni. Með henni er Akureyri viðurkennd sem mikilvægur valkostur við höfuðborgarsvæðið fyrir staðsetningu á stjórnsýslustarfsemi. Samstaða ríkir um það á Akureyri að styðja vel við bakið á Fiskistofu þegar hún verður komin í bæinn og áhersla lögð á að vel takist til við uppbyggingu hennar. Þá verður öllum liðsinnt, sem kjósa eða vilja kanna þann kost að fylgja stofnuninni á nýja starfsstöð.

Fiskistofa er gott dæmi um stofnun sem á vel heima á Akureyri þar sem bærinn á langa útgerðarsögu og er jafnframt eini staðurinn á landinu þar sem sjávarútvegsfræði hefur verið kennd á háskólastigi í áratugi. Það má því segja að á Akureyri séu kjöraðstæður fyrir höfuðstöðvar Fiskistofu. Og þetta er gagnkvæmt því tilkoma Fiskistofu mun hafa jákvæð áhrif á Háskólann á Akureyri og starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja sem og samfélagið allt.

Fjölgun sérhæfðra opinberra starfa á Akureyri eykur líka við þá fjölbreytni starfa sem er nú þegar innan bæjarins. Frekari fjölbreytni í störfum styður við fjölgun íbúa og að fólk sem vill búa á Akureyri finni sér störf við hæfi. Það er því full ástæða fyrir Akureyri að sækja fram með fjölgun opinberra starfa og frekari uppbyggingu atvinnulífs enda næg tækifæri til staðar. Ef vel tekst til í þessum efnum og með auknum umsvifum gæti orðið meiri fjölgun á Akureyri en við höfum séð hin síðari ár. Það er mikilvægt fyrir Akureyri að höfuðstöðvar stofnana séu þar staðsettar en ekki aðeins útibú því þegar skórinn kreppir að í opinberum fjármálum ríkir nefnilega tilhneiging til að leggja niður útibú.

Stjórnkerfi okkar er ekki hoggið í stein og þær áherslur sem þar birtast munu alltaf taka breytingum í samræmi við strauma og stefnur í samfélaginu hverju sinni. Við skulum því hafa í huga að þó að áherslan hafi hingað til verið á að byggja upp stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðinu þá er það ekki lögmál. Við eigum að leggja áherslu á að lykilstofnanir samfélags okkar séu byggðar upp á þeim stöðum sem best henta fyrir starfsemi þeirra. Í tilfelli Fiskistofu er ljóst að Akureyri er ákjósanlegasti staðurinn á landinu fyrir starfsemi hennar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×