Innlent

Akrafellið hugsalega ónýtt eftir strandið

Heimir Már Pétursson skrifar
mynd/Kristinn Þór Jónasson
Akrafellið sem strandaði við Vattarnes skammt frá Reyðarfirði fyrir viku, var dregið til hafnar á Reyðarfirði í morgun. Nákvæmt tjón liggur ekki fyrir á skipinu en svo gæti farið að það yrði selt í því ástandi sem það er núna.

Akrafell skip samskipa strandaði snemma morguns við Vattarnes fyrir nákvæmlega viku með þrettán manna áhöfn um borð sem sakaði ekki. En við rannsókn lögreglu kom í ljós að stýrimaður hafði sofnað í brúnni með sjálfstýringuna á og því var skipinu ekki beygt inn Reyðarfjörð eins og til stóð.

Vel gekk að losa skipið af strandstað sem var dregið til hafnar á Eskifirði sólarhring eftir að það strandaði.  Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa segir að ákveðið hafi verið að draga skipið í morgun til hafnar á Mjóeyri, sem er viðlegukantur álversins á Reyðarfirði með stórum gámakrana.

„Það á eftir að losa úr því farminn þannig að það var talið öruggast og fljótlegast að gera það með þessum hætti. Það er að segja úr því það var öruggt að búið væri að þétta leka og dæla úr vélarrúminu. Þess vegna ákváðum við að fara með skipið á Mjóeyri þar sem farmurinn verður losaður úr því í dag,“ segir Pálmar Óli.

En farmurinn er aðallega frosinn fiskur og ýmsar þurrvörur sem íslensk fyrirtæki eru að flytja til útlanda og átti Reyðarfjörður að vera síðasta höfn skipsins áður en það héldi til Evrópu í vikulegum siglingum sínum. Eftir að búið verður að losa farminn úr Akrafelli í dag verður það fært til hafnar á Búðareyri á Reyðarfirði.

„Og þar mun skipið liggja þar til ákveðið verður um framhaldið,“ segir Pálmar Óli. En þá fyrst verður hægt að meta að fullu það tjón sem orðið hefur á skipinu.

„Já, þá geta menn farið í að klára það. Það verður ekkert gert við skipið hér og liggur í rauninni ekki fyrir ennþá hvort gert verður við skipið eða hvort það verður hreinlega selt eins og það er,“ segir Pálmar Óli.

Þannig að það verður hugsanlega dæmt ónýtt?

„Það á bara eftir að koma í ljós,“ segir forstjóri Samskipa.

Samskip hefur leigt nýtt skip í stað Akrafells sem tekur við áætlun þess og leggur af stað frá Reykjavík á morgun norður fyrir land til að safna vörum til útflutnings og verður komið til Reyðarfjarðar í lok vikunnar. Eftir á að meta endanlega ástand farmsins sem var í Akrafelli, en frystigámar um borð í því voru rafmagnslausir í rúman sólarhring eftir strandið.




Tengdar fréttir

Akrafell á leið inn á Reyðarfjörð

Verið er draga Akrafell, flutningsskip sem strandaði við Vattarnes í vikunni, inn á Reyðarfjörð þar sem skipið verður losað.

Dælur hafa ekki undan

Talsverður sjór er í vél Akrafells sem misst hefur allt vélarafl og rafmagn.

Kapp lagt á að bjarga farmi Akrafells

Mikið af verðmætum frosnum fiski til útflutnings er í frystigámum um borð í Akrafelli sem ekki hafa fengið rafmagn frá því skipið strandaði.

Enn ráða dælur ekki við lekann

Unnið er að því um borð að setja upp skilrúm og koma í veg fyrir að sjórinn nái úr vélarrými skipsins. Kafarar vinna nú að því að meta stöðuna varðandi skemmdir á botni skipsins.

Akrafell komið í höfn

Skipið losnaði um miðnætti í nótt í kjölfar háflóðs og skipið Aðalsteinn dró það þá til hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×