Innlent

Akrafell strandaði í morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Mynd/Þorlákur
Flutningaskipið Akrafell strandaði um klukkan fimm í morgun Vattarnesskriðum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Í tilkynningu frá Samskipum segir að áhöfnin sé úr hættu en leki kom að skipinu við strandið.

Björgunarsveitir frá Austfjörðum komu fljótlega á strandstað og búið er að koma hluta úr áhöfninni frá borði og eru allir áhafnarmeðlimir úr hættu. Pálmar Óli Magnússon forstjóri  Samskipa segir skipið hafa strandað á skeri. Skipstjóri og vélstjóri séu enn um borð að aðstoða björgunarsveitarmenn.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin á strandstað um klukkan sjö í morgun og varðskip er á leiðinni. Gæslumenn þyrlunnar eru enn á strandstaðnum.

Aðgerðir eru í gangi til að dæla sjó úr skipinu ásamt því að koma í veg fyrir hugsanlega mengun. Veður á svæðinu er gott.

Í áhöfn skipsins eru 13 manns, frá Austur-Evrópu og Filipseyjum. Akrafell sem er 500 gámaeininga skip var á leið til Reyðarfjarðar þegar það strandaði. Skipið bættist í flota Samskipa árið 2013. Skipið er byggt í Kína árið 2003. Skipið er í eigu Samskipasamstæðunnar.

Mynd/Pétur Kristinsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×