Viðskipti innlent

Ákærður fyrir að svíkja 50 milljónir króna undan skatti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. vísir/valli
Sérstakur saksóknari hefur ákært karlmann á sextugsaldri fyrir meiri háttar brot gegn skatta –og bókhaldslögum.

Maðurinn er annars vegar ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélags síns fyrir uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2009 til og með september-október 2010. Hann hafi ekki greitt virðisaukaskatt sem innheimtur var vegna starfsemi félagsins, alls að upphæð 21.039.894 krónur.

Þá er maðurinn hins vegar ákærður fyrir að standa skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir árin 2010 og 2011 vegna tekjuáranna 2009 og 2010. Telur saksóknari að maðurinn hafi ekki talið fram tekjur í formi úttekta sem hann tók úr félaginu en þær eru skattskyldar samkvæmt lögum um tekjuskatt. Vangreiddur tekjuskattur og útsvar mannsins vegna þessa ákæruliðar nemur 30.058.506 krónum.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×