Viðskipti innlent

Ákærðir fyrir meiriháttar skattsvik á Austur og Laundromat

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hallur og Valgarð komu að rekstri Austur og Laundromat Café.
Hallur og Valgarð komu að rekstri Austur og Laundromat Café.
Héraðssaksóknari hefur ákært Hall Dan Johanssen og Valgarð Þórarinn Sörensen fyrir meiriháttar skattalagabrot og brot á almennum hegningarlögum.

Hallur Dan var stjórnarformaður og prókúruhafi einkahlutafélagsins Austurstræti 7, sem nú er þrotabú, sem stofnað var í kringum rekstur skemmtistaðarins Austur. Valgarð var meðstjórnandi og prókúruhafi félagsins.

Eru þeir ákærðir fyrir að hafa ekki staðið í skilum á virðisaukaskattskýrslum félagsins haustið 2009 og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins. Samtals voru 6.982.058 krónur í vanskilum.

Þá segir í ákærunni að þeir hafi ekki staðið skil á skilagrein einkahlutafélagsins í nóvember árið 2009 á lögmæltum tíma og ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna, samtals 719 þúsund krónum.

Tvímenningarnar opnuðu skemmtistaðinn Austur ásamt Ásgeiri Kolbeinssyni árið 2009. Félagið Austurstræti 7, sem hélt utan um reksturinn, varð gjaldþrota árið 201 og þá keypti Ásgeir staðinn.

11 milljónir í virðisaukaskatt sem skilaði sér ekki

Hallur Dan var sömuleiðis stjórnarformaður einkahlutafélagsins X 1050 sem stofnað var í kringum rekstur veitingahússins Laundromat. Valgarð Þórarinn var meðstjórnandi og daglegur stjórnandi með prókúru félagsins þar til 1. desember 2012.

Eru þeir ákærðir fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum félagsins frá mars 2012 til apríl 2013 á lögmæltum tíma og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins, samtals að upphæð 11.152.798 krónum.

Þá segir í ákæru að þeir hafi ekki staðið skil á skilagreinum félagsins í ágúst, október, nóvember og desember árið 2012. Þá hafi þeir ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna ágúst til og með desember árið 2012 og febrúar og desember árið 2013. Samtals nemur upphæðin 4.399.738 varðandi hlut Valgarðs og samtals 8.593.653 varðandi hlut Halls.

Laundromat varð gjaldþrota í febrúar árið 2014. Staðurinn var rekinn áfram með óbreyttu fyrirkomulagi af nýju félagi án aðkomu Halls og Valgarðs. Greint var frá því á dögunum að staðnum yrði lokað.

Er þess krafist að Hallur Dan og Valgarð Þórarinn verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×