Innlent

Ákæra vegna Facebook-ummæla „fráleit tímaskekkja“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigríður Rut Júlíusdóttir er lögmaður konunnar.
Sigríður Rut Júlíusdóttir er lögmaður konunnar.
„Það er hreint og beint fráleitt í lýðræðisþjóðfélagi árið 2014 að það sé verið að ákæra fyrir ummæli af þessu tagi,“ segir Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður konunnar sem gefið er að sök að hafa ritað ærumeiðandi aðdróttanir á Facebook um þáverandi oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps. Málið var þingfest í Héraðsdómi Vesturlands í gær.

Konan, sem er á þrítugsaldri, skrifað á samskiptasíðuna eftirfarandi athugasemd:

„En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir Ólafi sem á [...] Enda gaf Ólafur honum nýjan traktor (mútur eða hvað?)“

Eru ummælin túlkuð sem ásökun um mútuþægni Guðbjarts Gunnarssonar, þáverandi hreppsstjóra, en Ólafur sem hún vísar til er Ólafur Ólafsson fjárfestir. Kona Ólafs, Ingibjörg Kristjánsdóttir, á land í hreppnum

Konan segir hreppstjórann hafa þegið traktor frá Ólafi Ólafssyni fjárfesti.
„Þessi ákæra er ekki bara tímaskekkja, hún á einfaldlega ekki að sjást,“ bætir Sigríður við. „Refsingar fyrir ákvæði eins og 235. grein almennra hegningarlaga eru afskaplega fátíðar í vestrænum þjóðfélögum enda eru slík refsingarákvæði varla að finna í hegningarlögum vestrænna þjóða.“

Sigríður vildi ekki fara nánara út í málavexti að svo stöddu en segir að ummælin hafi átt fullkomlega rétt á sér. Konan hafi verið að svara fyrir sig og verjast ásökunum á hendur henni og fjölskyldu hennar.

Verði konan fundin sek gæti hún átt yfir höfði sér sekt eða allt að eins árs fangelsisdóm. Aðalmeðferð málsins hefst í september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×