Innlent

Ákæra í heimilisofbeldismáli fyrir dómi: „Ég er hamingjusöm í dag. Ég er frjáls“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Ég óttaðist að hann vildi meiða mig,“ sagði kona við aðalmeðferð í heimilisofbeldismáli sem fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
„Ég óttaðist að hann vildi meiða mig,“ sagði kona við aðalmeðferð í heimilisofbeldismáli sem fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Vísir/Getty
Karlmaður á fimmtugsaldri neitaði sök við aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn honum sem fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Er maðurinn ákærður fyrir líkamsárásir og hótanir gagnvart þáverandi eiginkonu sinni.

Hann er sakaður um að hafa sparkað í andlit konunnar þar sem hún hélt á tveggja ára gömlum syni þeirra í fanginu. Þá er hann sagður hafa lagt hníf upp að hálsi hennar og hótaði að skera höfuð hennar af ef hún gerði eitthvað rangt eins og frá er greint í ákæru.

Ákært er fyrir tvær líkamsárásir á heimili þeirra í Reykjavík. Sú fyrri í ágúst 2012 þegar maðurinn á að hafa dregið konu sína inn á baðherbergi þeirra þar sem hann reyndi að ýta höfði hennar ofan í klósett. Þá er honum gefið að sök að hafa ógnað hann henni með hnífi og kastaði hnífnum á eftir konunni þegar hún forðaði sér út af heimilinu og leitaði aðstoðar hjá nágrönnum.

Með tveggja ára gamalt barn í fanginu

Síðari líkamsárásin varð ári síðar og er ákært fyrir líkamsárás og hótanir gagnvart konunni en einnig brot á barnaverndarlögum. Á maðurinn að hafa veist að konunni í hjónaherbergi þeirra þar sem hún lá með tveggja ára gamalt barn þeirra og sparkað í andlit hennar og læri auk þess að hafa slegið hana í andlit og maga.

Þá er maðurinn ákærður fyrir að leggja hníf upp að hálsi konunnar og sakaður um að hafa hótað því skera höfuðið af ef hún hlýddi honum ekki.

„Með framangreindri háttsemi beitti ákærði son sinn ógnunum og sýndi honum yfirgang og ruddalegt athæfi,“ eins og segir í ákærunni.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Maðurinn á yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi. Þá krefst fyrrverandi kona hans 900 þúsund króna í skaða- og miskabætur.

Mikið rifist

„Ég gerði ekkert af þessu sem fram kemur í ákærunni,“ sagði maðurinn við aðalmeðferðina þegar hann var beðinn um að tjá sig um sakarefnin. Þegar hann var beðinn um að lýsa atburðarásina í ágúst árið 2012 eins og lýst er í ákærunni sagði hann þau hjónin hafa rifist þann dag. Sagði hann rifrildið hafa snúist um málefni sem þau höfðu rifist stanslaust um. Hann vill meina að eiginkona sín hefði viljað senda peninga til ættingja í öðru landi. Hann sagðist aldrei hafa gripið til hnífs en eiginkonan hans fyrrverandi sagðist muna vel eftir honum.

„Ég man eftir því að hann greip hnífinn, þetta var stór hnífur,“ sagði konan í dómssal. „Ég var hrædd. Þetta er ekki venjulegur hnífur,“ sagði konan og bætti við að ekki hefði verið um venjulegan eldhúshníf að ræða heldur lýsti hún honum sem sveðju.

„Ég óttaðist að hann vildi meiða mig.“

„Ásakaði mig um óheyrilega hluti“

Seinni líkamsárásin átti sér stað í ágúst ári síðar. Þá voru foreldrar konunnar á heimili þeirra hjóna og höfðu blandað sér í rifrildi á milli þeirra tveggja. Í máli saksóknara kom fram að lögreglumaður hefði skrifað í skýrslu vegna atviksins að áverkar hefðu verið sýnilegir á konu mannsins og föður hennar.

Maðurinn sagðist ekki muna vel eftir þessu umrædda kvöldi en eftir því sem hann best veit gerði hann ekki neitt.

Konan sagðist hafa verið í sturtu þetta umrædda kvöld og hún hafi ákveðið að læsa ekki baðherberginu því margir voru í húsinu og sú staða gæti komið upp að einhver þyrfti að nota baðherbergið. Maðurinn hennar hefði til að mynda gert það. Þá hefði faðir hennar ætlað inn á baðherbergið en þegar honum varð ljóst að dóttir hans var þar í sturtu fór hann strax út. Það varð hins vegar til þess að reita manninn til reiði.

„Hann sakaði mig og föður minn um að hafa gert eitthvað inni á baðherbergi. Hann hló brjálæðislega og lét eins og ég og faðir minn hefðum gert eitthvað ósæmilegt inni á baði. Ég var orðlaus. Ég gat ekki sagt neitt eða brugðist við. Hann ásakaði mig um óheyrilega hluti sem ég átti engin orð yfir,“ sagði konan.

Kölluðu til lögreglu

„Ég óskaði skýringa hvað hefði gerst inn á baðherbergi,“ sagði maðurinn þegar hann var spurður út í þetta atvik.

Svo fór að foreldrar konunnar drógu hana og börnin inn í stofu og varnaði faðir hennar för mannsins inn í stofuna með því að setja borð fyrir stofuhurðina. Var lögreglan kölluð til og fjarlægði hún manninn af heimilinu. Konan leitaði til Kvennaathvarfsins tvisvar samkvæmt því sem fram kom við aðalmeðferðina en í dag er þau skilin.

„Ég er hamingjusöm í dag. Ég er frjáls,“ sagði konan og bætti við að þessi tími í lífi hennar hefði valdið henni vanlíðan og hún ekki treyst sér að fara á staði þar sem hún óttaðist að hitta manninn. Hún sagðist vera frelsinu fegin. „Ég er frjáls og get tekið mínar eigin ákvarðanir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×