Lífið

Airwaves fær 22 milljónir

Benedikt Bóas skrifar
Það var troðfullt á Hlíðarenda þegar Mumford and Sons tók lagið á síðustu hátíð.
Það var troðfullt á Hlíðarenda þegar Mumford and Sons tók lagið á síðustu hátíð. Vísir/ernir
Samningurinn milli Reykjavíkurborgar og tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves sem var lagður fram í borgarráði á fimmtudag gildir út árið 2019. Á samningstímanum fær hátíðin 22 milljónir króna, átta milljónir í ár en 14 á því næsta. Fær hátíðin lagðar inn á reikning sinn þrjár milljónir í júní og ágúst en tvær milljónir í nóvember. Á næsta ári fær hátíðin 3,5 milljónir fjórum sinnum. Framlag borgarinnar vegna ársins 2019 er með fyrirvara um samþykki borgarráðs.

Samkvæmt samningnum á hátíðin að bera ábyrgð á markaðssetningu hátíðarinnar og á að leggja sig fram við að skapa sem besta og jákvæðasta umfjöllun í innlendum og erlendum fjölmiðlum.

Það á að koma skýrt fram að hátíðin fái styrk frá borginni og borgarinnar skal getið sem bakhjarls í öllu kynningar- og markaðsstarfi hátíðarinnar, meðal annars á vefsvæði hátíðarinnar.

Örlítið borgarmerki sést þegar farið er á heimasíðuna icelandair­waves.is og þegar skrollað er niður að bakhjörlum stendur aðeins Reykjavik Loves. Undir því er myllumerki með sömu orðum.

Forsvarsmenn hátíðarinnar skulu leggja fram á desemberfundi bráðabirgðauppgjör og skýrslu hátíðarinnar sem haldin verður 7.-10. nóvember. Komist menningar- og ferðamálasvið borgarinnar að þeirri niðurstöðu að hátíðin uppfylli ekki skilyrðin fellur samningurinn úr gildi um áramót. Borgin áskilur sér rétt til að krefjast endurgreiðslu verði framlögin ekki notuð samkvæmt samningnum. Forsvarsmenn hátíðarinnar svöruðu ekki spurningum Fréttablaðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×