Erlent

Áhugamenn um óveður létust er þeir eltust við skýstrók

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
vísir/getty
Þrír þekktir áhugamenn um óveður létust í bílslysi í Texas síðdegis í gær. Þeir höfðu verið að keyra í átt að stærðarinnar skýstrók þegar bílstjóra bifreiðarinnar, Kelley Williamsson, fyrirfórst að virða stöðvunarskyldu með þeim afleiðingum að jeppi keyrði inn í hlið bifreiðarinnar.

Ökumaður jeppans, tuttugu og fimm ára gamall maður, lést einnig í slysinu.

Tildrög slyssins eru að öðru leyti óljós en veðrið var slæmt og talsverð úrkoma þegar slysið varð.

Mennirnir tveir, sem voru að eltast við skýstrókinn, eru Bandaríkjamönnum kunnugir úr þáttunum Storm Wranglers sem sýndir eru á Weather Channel.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem áhugamenn um óveður, svokallaðir storm chasers, látast þegar þeir sinna sínu helsta áhugamáli en árið 2013 létust þrír menn þegar þeir voru á höttunum eftir skýstróki í Oklahoma.

Veðurfræðingurinn Tim Marshall sagði í samtali við New York Times að það væri þó ekki endilega veðrið sjálft sem væri mesta hættan fyrir óveðursfangara, heldur væri bílferðin hættulegri.

Hann sagðist sjálfur vera mikill áhugamaður um óveður og keyrði gjarnan á vettvang til þess að berja dýrðina augum. Þegar hann legði í slíkar ferðir þætti honum þó mikilvægt að einhver annar en hann sjálfur væri við stýrið enda erfitt að láta ekki truflast.

„Það er ekki eldingin eða haglið sem er mesta hættan, heldur bílarnir,“ sagði Marshall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×