Menning

Áhugaljósmyndarinn Binni frá Ólafsfirði

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ljósmyndin af grindhvalavöðunni er ein sú fyrsta sem birtist eftir Binna þegar hann var átján ára gamall.
Ljósmyndin af grindhvalavöðunni er ein sú fyrsta sem birtist eftir Binna þegar hann var átján ára gamall. Mynd/BrynjólfurSveinsson
Í dag verður opnuð sýning á ljósmyndum Brynjólfs Sveinssonar áhugaljósmyndara.

Brynjólfur var fæddur 1914 en lést árið 1981 og var hann gjarnan kallaður Binni.

Ljósmyndaáhuginn lét snemma á sér kræla og fór hann að taka myndir sextán ára gamall og talsvert af myndum birtust eftir hann í bókum, blöðum og tímaritum, fyrst árið 1933 þegar Binni var átján ára gamall.

Fjölskylda Binna stóð í tilefni af hundrað ára fæðingarafmæli hans fyrir sýningu á ljósmyndum og kvikmyndum hans í Ólafsfirði. Var það í fyrsta skipti sem úrval mynda hans var sýnt opinberlega.

Í dag verður opnuð sýning í Sjóminjasafninu með stórum hluta þeirra mynda sem sýndar voru á síðasta ári í Ólafsfirði.

Á ljósmyndum Brynjólfs má sjá athafnalífið við höfnina, sjómenn, fiskverkafólk og myndir af Ólafsfirðingum við sín daglegu störf, en einnig á hátíðar- og sorgarstundum.

Á sýningunni eru meðal annars myndir af skipsskaða á hvítasunnu árið 1935, vígslu sundlaugar Ólafsfjarðar árið 1945 og myndir sem hann tók í tengslum við flugslysið í Héðinsfirði árið 1947.

Ljósmyndasafn Binna er varðveitt á Minjasafni Akureyrar en sýningin verður opnuð sem fyrr segir í dag klukkan fimm í Hornsílinu í Sjóminjasafninu í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×