Viðskipti innlent

Áhrif framleiðslunnar á umhverfið óveruleg

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á Grundartanga á að rísa fyrirhuguð verksmiðja Silicor Materials.
Á Grundartanga á að rísa fyrirhuguð verksmiðja Silicor Materials. Fréttablaðið/GVA
Bent hefur verið á að veruleg mengun hafi fylgt framleiðslu sólarkísils. Í grein sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur ritar á vef sinn bendir hann á að slíkri framleiðslu hafi fylgt mikil losun á eiturefninu sílikontetraklóríði auk þess sem klórgas berist í miklu magni út í andrúmsloftið.

Bandaríska fyrirtækið Silicor Materials ætlar í haust að hefja byggingu 19 þúsund tonna sólarkísilverksmiðju á Grundartanga og á starfsemi að hefjast þar árið 2017.

„Er ef til vill búið að afskrifa Hvalfjörð og Akranes, og dæma þetta svæði sem iðnaðarhverfi, þar sem mengun er leyfileg?“ spyr Haraldur í umfjöllun á vef sínum.

Á vef Silicor Materials kemur hins vegar fram að fyrirtækið hafi einkaleyfi á nýrri framleiðsluaðferð sem ekki hafi í för með sér slíka mengun. Bráðið ál er notað til að hreinsa kísilmálminn og síðan selt aftur í áliðnað.

Þá var það mat Skipulagsstofnunar í apríllok á þessu ári að „hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísli á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“

Mengun sem berist frá starfseminni til andrúmsloftsins sé ryk samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um magn þess og samsetningu verði áhrif af völdum þess óveruleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×