Lífið

Áhorfandinn fær að skyggnast inn í heim heita pottsins - Myndband

Stefán Árni Pálsson skrifar
Umræðurnar í heita pottinum eru oft skemmtilegar.
Umræðurnar í heita pottinum eru oft skemmtilegar. Ljósmyndir: María Kjartansdóttir
Heiti potturinn, eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur, er stutt heimildamynd sem fangar heillandi menningu Íslendinga – umræðurnar og persónurnar í heita pottinum.

Myndin færir áhorfandann inn í heim heita pottsins og fléttar saman myndskreytingum og hljóðmynd við klassíska heimildagerð. Umfangsefnið er Húnahópurinn sem mætir stundvíslega kl. 06:30 á hverjum morgni í Vesturbæjarlaugina og ræðir allt milli himins og jarðar.

Áhorfandinn fær að fylgjast með samræðum og upplifa það að vera með í heita pottinum og hluti af Húnahópnum sem mætir sama hvernig viðrar. Harpa gekk til liðs við hópinn og fylgdi honum eftir í hálft ár en hópurinn kaus hana sem nýliða ársins á árlegri uppskeruhátíð. Heiti Potturinn verður frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði sem fer fram dagana 13. – 16. maí.

Harpa mun halda tónleika á Skjaldborgarhátíðinni í heita pottinum en hún semur einnig tónlistina í myndinni ásamt því að tónverk eftir Hinn íslenska Þursaflokk, KiraKira og dj. flugvél og geimskip hljóðskreyta myndina. Myndin er einnig myndskreytt að hluta til af Láru Garðarsdóttur, myndskreyti.

Myndin hlaut styrk hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands og mun vera sýnd á erlendum kvikmyndahátíðum eftir frumsýninguna. Hér að neðan má sjá nýja stiklu úr myndinni.

The Hot Tub - TRAILER from Askja Films on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×