Skoðun

Áhættan sé hjá fjárfestum en ekki almenningi

Álfheiður Ingadóttir skrifar
Á undanförnum árum hafa margir spáð nýju bankahruni sem hefði afleiðingar fyrir heimsbyggðina alla. Ástæðan er einföld: Fjármálakerfi heimsins og skipulagi bankamála var ekki breytt í kjölfar hrunsins. Það er óbreytt og veikleikarnir þeir sömu og áður, hættan sú sama og áður.

Eftir bankahrunið 2007–2008 var kallað eftir endurskipulagningu fjármálakerfisins á heimsvísu. Margir röktu hrunið til þess að bandarísku Glass-Steagall lögin voru afnumin 1999, en þau voru sett eftir heimskreppuna 1929 til að koma í veg fyrir að bankarnir gætu velt tapi af áhættusömum fjárfestingum yfir á almenna viðskiptamenn. Í kjölfarið var Glass-Steagall takmörkunum aflétt í flestum vestrænum ríkjum – þeirra á meðal á Íslandi – og þegar bólan sprakk var tapi fjárfesta velt yfir á almenning og heimili, eins og við þekkjum manna best á Íslandi.

Í Bandaríkjunum og Evrópu fóru fram ítarlegar rannsóknir, kynntar voru tillögur á vegum þinga, ríkisstjórna og Evrópusambandsins til að koma í veg fyrir aðra heimskreppu og tryggja um leið að áhættan lenti á þeim sem hefðu til hennar stofnað ef kerfið hryndi. En tillögurnar hafa ekki orðið að veruleika: Eigendum bankanna hefur tekist að koma í veg fyrir fullan aðskilnað fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi í anda Glass Steagall. Þeir hafa þverskallast við og því er mikil hætta á að nýtt bankahrun bitni á nákvæmlega sama hátt á almennum viðskiptavinum bankanna eins og gerðist 2007–2008!

Nú þegar brestir eru komnir á ný í fjármálamarkaði heimsins er augljóst að krafan um aðskilnað í bankakerfinu verður að hafa forgang á þjóðþingum í Evrópu, þar á meðal á Íslandi. Það má ekki lengur líða bönkunum að koma í veg fyrir þessa einföldu breytingu sem hefur þann tilgang einan að verja eignir einstaklinga og heimila fyrir áhættusæknum fjármálaspekúlöntum.

Nú hafa þingmenn úr fjórum flokkum endurflutt tillögu um aðskilnað í bankakerfinu. Vonandi bregst þingið við nýjustu tíðindum af fjármálamarkaði heimsins og samþykkir hana. Það má ekki dragast lengur.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×