Íslenski boltinn

Ágúst um toppbaráttuna: Eins og staðan er núna, af hverju ekki?

Ingvi Þór Sæmundsson á Þróttarvelli skrifar
Ágúst er að gera flotta hluti með Fjölni.
Ágúst er að gera flotta hluti með Fjölni. vísir/daníel
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var að vonum ánægður með sína stráka eftir 0-5 sigur á Þrótti í Laugardalnum í kvöld.

„Við áttum góðan dag, skoruðum fimm mörk og fengum ekkert á okkur. Menn stóðu sig mjög vel,“ sagði Ágúst eftir leik.

„Þróttarar fengu reyndar 2-3 dauðafæri í fyrri hálfleik, það má ekki taka það af þeim. Þeir voru inni í leiknum alveg fram að fyrsta markinu. En við leiddum 0-2 í hálfleik og það þurfti aðeins að halda mönnum á jörðinni í hálfleiknum. En við spiluðum gríðarlega sterkan seinni hálfleik.“

Birnir Snær Ingason átti skínandi góðan leik á hægri kantinum og skilaði tveimur mörkum og stoðsendingu. Ágúst var spurður hvort þar væri kominn arftaki Arons Sigurðarsonar.

„Það má vel vera. Við eigum nóg af Aronum Sig í Grafarvoginum. Birnir er að stíga skref fram á við núna og er að standa sig vel,“ sagði þjálfarinn.

Fjölnir er í 2. sæti Pepsi-deildarinnar með 19 stig, einu stigi á eftir toppliði FH. En telur Ágúst að Grafarvogsliðið geti barist á toppnum í sumar?

„Ég sagði einhvern tímann að tilvera okkar væri í toppbaráttu og við höfum spilað vel og unnið þrjá leiki í röð. Eins og staðan er í dag, af hverju ekki? En það er langt í land og fullt af leikjum eftir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×